Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Fimmtudaginn 11. mars 2004, kl. 17:37:50 (5276)

2004-03-11 17:37:50# 130. lþ. 82.9 fundur 565. mál: #A jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla# (upplýsingaskylda, málshöfðunarheimild) frv., Flm. AtlG
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[17:37]

Flm. (Atli Gíslason):

Frú forseti. Hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir lýsti yfir stuðningi við frv., fyrir utan samflokksmenn mína. Ég þakka henni stuðninginn sem kom mér að vísu ekki á óvart. Hv. þm. er auðvitað kunn að skoðunum sínum á þessu sviði.

Það er svo ótrúlega víða sem manni birtast þessi mannréttindabrot, þetta gríðarlega vanmat á störfum kvenna, og temji maður sér að horfa á einstök mál með kynjagleraugum eða með mannréttindagleraugum og æfir sig á því, kemur þetta upp á hverjum einasta degi. Með verri dæmum sem ég hef séð nokkuð lengi urðu á vegi mínum í gær þegar hér var rætt um tímakaup fanga. Tímakaup fyrir trésmíði, járnsmíði og þvott á bílum voru greiddar með 350 kr. en hin hefðbundnu kvennastörf, þrif innan húss, með 280 kr. Enn verra varð mér við þegar hæstv. dómsmrh. upplýsti að ákvörðunin væri tekin út frá arðsemi vinnunnar. Ég hygg satt best að segja að ég hafi ekki orðið meira undrandi lengi því ég hélt að grunnur þess að Alþingi starfaði væri að húsið væri þrifið reglulega. Ekki stæðum við lengi hér ef húsið væri ekki þrifið eins vel og það er gert á hverjum degi og gengið um það með miklum sóma.

Ég skora á þá sem horfa á mál á Alþingi, og auðvitað horfir fjöldi jafnréttissinna á öll frv. sem koma fram, öll þingmál, að horfa á þau með kynjagleraugum eða kvenfrelsisgleraugum og gera athugasemdir í hvert skipti sem mönnum verður á við að samþætta hagsmuni kvenna inn í þingmál.

Það eru vonbrigði fyrir mig að fleiri þingmenn skyldu ekki taka til máls og e.t.v. fyrst og fremst þingmenn ríkisstjórnarflokkanna. Ég verð líka að segja eins og er, að þegar rætt er um mannréttindamál á þingi hygg ég að hæstv. félmrh. hafi þurft að vera í ærið brýnum önnum til að láta vera að mæta og segja hug sinn til þessara mála, ungur maðurinn. Ég læt öðrum um að dæma um áhugaleysi þeirra, m.a. um áhugaleysi hæstv. félmrh.

Ég sagði í fyrri ræðu minni að það væri ekki tiltökumál að veita Samkeppnisstofnun og fleiri aðilum valdheimildir og eftirlitsheimildir og lýsti því með dæmi. Ég vísaði þar til 39. gr. samkeppnislaga þar sem allar heimildirnar eru veittar og mun fleiri. Þó er samkeppni ekki getið í stjórnarskránni. En kvenna er sérstaklega getið í 2. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar og brot gegn samkeppnislögum varða milljónatugi í stærstu málum en mannréttindabrotin mega liggja á milli hluta. Ríkisstjórninni hefur ekki þótt tiltökumál að setja inn í lög eftirlitsheimildir af ýmsum toga. Síðast get ég nefnt frv. til laga um fasteignasala sem liggur fyrir allshn. núna og er þar til afgreiðslu. Þar er gert ráð fyrir að eftirlitsmenn fari þriðja hvert ár til hvers fasteignasala á landinu til skoðunar og fari í skjöl og bókhald og allt slíkt, jafnvel þó að ekkert liggi fyrir um rökstuddan grun um brot á lögum. Engu að síður leggur ríkisstjórnin til að hver og einn fasteignasali sæti skoðun þriðja hvert ár. Það ætti því vart að vera tiltökumál að veita frv. og þeim eftirlitsheimildum sem þar eru veittar brautargengi, og það öflugt brautargengi.

Ég minntist á það áðan að menn hefðust ólíkt að í heiminum. Hér gleymist 8. mars, hann er gleymdur forustumönnum þjóðarinnar í ríkisstjórn og víðar meðan forsrh. Noregs sá sérstakt tilefni til þess fyrir tveimur árum að grípa til stjórnvaldstækja sem hafa dugað. Ekki er hann félagsmaður í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði. Hann er íhaldsmaður sem skynjar fullkomlega að verið er að brjóta mannréttindi. (Gripið fram í: Kristilegur.) Kristilegur íhaldsamaður, það er kannski þess vegna. Ríkisstjórnin í Noregi undir forustu Kjells Magnes Bondeviks hefur farið lengra. Hún sættir sig ekki við að konur komi hvergi að einkarekstrinum nema með smásmugulegum hætti, í stjórnum og annað.

Nú fara í hönd ársfundir eða hluthafafundir, aðalfundir allra stærstu hlutafélaga landsins. Við munum sjá myndir í blöðunum á hverjum degi af stjórnarborðinu. Það er auðvelt fyrir hvern mann að gera talningu á þeim stjórnarborðum og sjá hver hlutur kvenna er í að stjórna landinu. Þegar svo er þarf að búa til stjórnvaldstæki. Hér er eitt stjórnvaldstæki til umræðu og orðið tímabært að setja þau upp, það eru kynjakvótar. Það er heldur ekki hægt að horfa upp á það að konum fækki á Alþingi eins og gerðist í síðustu kosningum. Það er þyngra en tárum taki. Ef þetta gengur þannig fyrir sig í stjórnmálaflokkunum verður að setja kynjakvóta við alþingiskosningar, annað er ekki hægt, setja stjórnvaldstæki. Það er þörf á róttækum aðgerðum vegna þess að mannréttindabrot kalla á róttækar aðgerðir.

Kvenfrelsi hefur verið leiðarljós Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs alveg frá stofnun hreyfingarinnar og hreyfingin hefur samið ítarleg stefnudrög um kvenfrelsi. Þetta eru drög og þau eru enn í vinnslu eins og allir málaflokkar Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. En þetta er einn meginkjarninn í stefnu flokksins, auk áherslu á umhverfismál og fleiri mál. Stefnudrögin segja eiginlega allt sem segja þarf í kvenfrelsismálum og opnuðu um margt augu mín þótt ég teldi mig þokkalega sjóaðan í þessu mikilsverða máli, hafandi fylgst með því frá því að rauðsokkurnar komu fram á sínum tíma. Við látum ekki staðar numið við að setja drög heldur fléttum við þessu inn í öll önnur stefnumál eins og við gerum varðandi umhverfismálin líka.

Frumvarpið sem hér er frammi er beitt vopn í mannréttindabaráttu kvenna, verði það að lögum, og ekki bara beitt vopn gagnvart einstökum atvinnurekendum, stofnunum eða ríkisfyrirtækjum. Það er ákveðið fordæmi út á við, það er ákveðið leiðarljós þannig að ef þessi vilji Alþingis kemur fram er sá vilji fordæmi fyrir þá sem stunda rekstur fyrirtækja, hvort sem er í einkarekstri eða opinberum rekstri og e.t.v. hugsa forstöðumenn ríkisstofnana eða stórra hlutafélaga sig um tvisvar og e.t.v getum við þá búið til þann samkeppnisgrunn sem Bjarni Ármannsson talaði um að mundi leysa kynbundna launamuninn. Hann verður ekki leystur fyrr en konur standa jafnfætis körlum á öllum sviðum. Þar á ég líka við um fjölskylduábyrgðina.

Mannréttindi eru brotin á konum alla daga ársins. Gegn því verður að snúast af þeim sem þora, af þeim sem vilja og af þeim sem geta. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð þorir, getur og vill.