Lögfræðiaðstoð við efnalítið fólk

Fimmtudaginn 11. mars 2004, kl. 17:58:16 (5278)

2004-03-11 17:58:16# 130. lþ. 82.10 fundur 568. mál: #A lögfræðiaðstoð við efnalítið fólk# þál., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[17:58]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir þetta þingmál, till. til þál., en ég leyfi mér að spyrja, hæstv. forseti: Hvar eru stjórnarsinnar við þessa umræðu? Hvar eru fulltrúar Sjálfstfl.? Hvar eru fulltrúar Framsfl.?

Aftur og ítrekað gerist hið sama, fulltrúar þessara flokka láta ekki sjá sig þegar verið er að taka á málefnum sem snerta þá hópa í samfélaginu sem búa við erfiðustu kjörin. Þá hverfa fulltrúar stjórnarmeirihlutans af þingi. Ég held að það sé rétt að á meðal almennra þingmanna sé mikill stuðningur við þetta þingmál en það er ekki látið reyna á hann. Það hefur áður verið talað fyrir þessu máli af hálfu sama hv. þm., Jóhönnu Sigurðardóttur. Málið hefur farið til nefndar og hún upplýsir það hér að nefndin hafi ekki einu sinni sent það til umsagnar.

Mér finnast þetta vera forkastanleg vinnubrögð.

Með þáltill. fylgir ítarleg greinargerð þar sem vísað er í samsvarandi löggjöf á Norðurlöndum, í Danmörku og víðar, sem lagt er til að verði lögfest hér á landi en málið fæst ekki einu sinni rætt.

Ég lít svo á að hér sé mikið þjóðþrifamál á ferðinni. Áhugamenn um sögu þekkja það að þegar frjálslyndisstefnan ruddi sér til rúms á 19. öld var lögð á það áhersla af hálfu þeirra sem báru uppi merki hennar að tryggja að einstaklingarnir stæðu jafnfætis frammi fyrir stofnunum samfélagsins. Meðal þessara stofnana voru að sjálfsögðu dómstólar. Síðan fór að renna upp fyrir mönnum að það væri eitt að tryggja í orði kveðnu jafnan aðgang að dómstólunum og annað að gera það í reynd. Þessi umræða kom hér upp mjög ákveðið fyrir fáeinum árum, allnokkrum árum, í tengslum við gjaldþrotahrinu í samfélaginu og þá voru stofnuð sérstök samtök, G-samtökin, sem börðust fyrir gjafsókn. Þar sögðu menn reynslusögur. Ég minnist þess að hafa komið á fundi samtakanna þar sem fólk var að kynna málstaðinn, fólk sem hafði gengið í gegnum gjaldþrot, og lýsti því hvernig það hefði leitað aðstoðar hjá lögmönnum sem spurðu að sjálfsögðu hvert tilefnið væri. Svarið var gjaldþrot. Þá var spurt hvernig viðkomandi ætlaði að greiða fyrir málskostnaðinn. Svarið var að hann yrði ekki greiddur. Þá urðu að sjálfsögð engin málaferli. Dómstólarnir stóðu öllum opnir en efnahagur viðkomandi kom í veg fyrir að hann fengi notið þeirra réttinda sem stjórnarskráin á að tryggja. Út á það gengur þetta þingmál, að tryggja efnalitlu fólki lögfræðiaðstoð og það er tilgreint í hvaða tilvikum það skuli gert. Ég tel að þetta sé sett fram á mjög málefnalegan hátt, tek heils hugar undir þetta þingmál og mun gera mitt til að veita því brautargengi í þinginu.