Samvinna Vestur-Norðurlanda í heilbrigðismálum

Fimmtudaginn 11. mars 2004, kl. 18:23:09 (5283)

2004-03-11 18:23:09# 130. lþ. 82.11 fundur 571. mál: #A samvinna Vestur-Norðurlanda í heilbrigðismálum# þál., MÞH
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[18:23]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Virðulegi forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að þakka flutningsmanni þáltill., hv. þm. Birgi Ármannssyni, sem jafnframt er formaður þingmannanefndar Vestnorræna ráðsins á Íslandi, fyrir að hafa lagt tillöguna fram. Ég tel að hér sé mjög gott mál á ferðinni. Ég er sjálfur einn af flutningsmönnum og ég hef tekið þátt í einni ferð frá því að ég hóf störf í þinginu í maí. sl. sem var mjög áhugaverð og lærdómsrík, en það er sú ferð sem hv. þm. Birgir Ármannsson minntist á, á ráðstefnu sem haldin var í Ilulissat á Vestur-Grænlandi í júní á síðasta ári sem einmitt fjallaði um heilbrigðismál. Það var að sönnu mjög lærdómsríkt og athyglisvert og mikil upplifun að fara á þá ráðstefnu og hlusta á erindi sem þar voru haldin. Þarna hélt erindi fólk frá öllum þremur löndunum, Færeyjum, Íslandi og Grænlandi, og þar komu fram mjög merkileg og athyglisverð sjónarmið og maður sannfærðist í raun og veru um að það hljóti að vera hægt að finna leiðir til þess að nýta heilbrigðiskerfin í þessum þremur löndum betur og að við Íslendingar gætum kannski orðið eins konar miðjupunktur hvað varðar ýmsar tegundir heilbrigðisþjónustu, þ.e. að sjúklingar gætu komið til Íslands frá Grænlandi og Færeyjum.

Grænlenska heilbrigðiskerfið er mjög ófullkomið, vegalengdir á Grænlandi eru miklar og þó nokkuð um ýmsa sjúkdóma sem hægt er að lækna en því miður eru læknar varla fyrir hendi og þar er slæm heilbrigðisþjónusta og mikill barnadauði. Þarna er því sannarlega verk að vinna, mjög þarft og gott verk að vinna. Ég held að við með okkar góðu heilbrigðisþjónustu hljótum að geta hjálpað vinum okkar á Grænlandi með því að efla samstarf við þá á þessu sviði.

Hvað varðar Færeyinga var m.a. nefnt á ráðstefnunni að Færeyingar hefðu t.d. áhuga á heilbrigðisþjónustu varðandi ýmsa hjartasjúkdóma á Íslandi. Það er ekki langur vegur frá Færeyjum til Íslands, það er rétt rúmur einn og hálfur tími að fljúga og sæmilega þokkalegar flugsamgöngur á milli. Færeyingum þykir jafnvel lengra að þurfa að fara til Danmerkur, þeir eru vanir að fara þangað til að sækja heilbrigðisþjónustu ef þeir þurfa á því að halda. Það er reyndar ágætis sjúkrahús í Þórshöfn í Færeyjum.

Ég held að ef okkur tækist að finna farveg í þessu þarfa máli væri mjög vel unnið. Ég vona svo sannarlega að þáltill. fái góða og vandaða afgreiðslu í heilbrn., að ég vænti, og að þingið muni síðan afgreiða hana og þetta samstarf komist á hið fyrsta.