Starfshópur um eyðingarverksmiðjur

Mánudaginn 15. mars 2004, kl. 15:14:35 (5292)

2004-03-15 15:14:35# 130. lþ. 83.1 fundur 405#B starfshópur um eyðingarverksmiðjur# (óundirbúin fsp.), BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 130. lþ.

[15:14]

Björgvin G. Sigurðsson:

Hæstv. forseti. Það er í sjálfu sér ánægjuefni að ráðherra ætli að kalla eftir niðurstöðum vinnuhópsins núna þegar fer að banka í að það sé hálft ár frá því að hópurinn átti að skila niðurstöðum sínum. Það er ástæða til að hvetja hann til að kalla svolítið hressilega eftir niðurstöðunum. Hér er um ákaflega brýnt mál að ræða, ekki bara fyrir þá sem reka viðkomandi verksmiðju á Suðurlandi, kjötmjölsverksmiðjuna sem nú hefur verið breytt í eyðingarverksmiðju eftir talsverðar ófarir sem er hægt að rekja til margvíslegra ástæðna. Ekki er mál til að fara yfir þær hér en hæstv. landbrh. gat um þær í máli sínu áðan. Þeim mun mikilvægara er fyrir þessa aðila, svo og þá sem vilja tryggja almennilega og góða eyðingu á sláturúrgangi, að málinu sé fylgt eftir. Þarna er um að ræða mjög mikilsvert umhverfismál, ekki síður en atvinnu- og byggðamál heima í héraði, af því að það var mikið óefni þegar þessu var fargað með öðrum hætti og um mikla umhverfisbót að ræða þegar eyðingarverksmiðjur af þessu tagi hófu störf. Því er ástæða til að hvetja til þess.