Starfshópur um eyðingarverksmiðjur

Mánudaginn 15. mars 2004, kl. 15:16:52 (5294)

2004-03-15 15:16:52# 130. lþ. 83.1 fundur 405#B starfshópur um eyðingarverksmiðjur# (óundirbúin fsp.), BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 130. lþ.

[15:16]

Björgvin G. Sigurðsson:

Hæstv. forseti. Ég vil nota tækifærið og skora á hæstv. landbrh. að ýta við bakið á hinum værukæra vinnuhópi sem hefur tekið sér heila sex mánuði fram yfir þann frest sem upp var gefinn þegar hópurinn var skipaður þann 30. júní sl. Þá var rætt um að hópurinn lyki störfum innan þriggja mánaða. Þeir þrír mánuðir eru orðnir að tæpum níu, ef rétt telst til, og hlýtur mikið að liggja undir og menn hljóta að bíða niðurstöðu vinnuhópsins með mikilli eftirvæntingu þar sem hann hefur tekið sér það bessaleyfi að fara hálft ár fram yfir uppgefinn frest. Maður skyldi ætla að þarna væri að vænta niðurstaðna og tillagna sem verða til þess að skjóta enn þá traustari stoðum undir eyðingarverksmiðjurnar enda, eins og ég sagði áðan, er um nokkuð glæsilegt fyrirtæki að ræða sem skiptir miklu í atvinnulegu tilliti á því svæði sem það var byggt á, þrátt fyrir að einhverjar blikur kynnu að vera á lofti, og eins og ég sagði áðan er ekki síður um mjög mikilvægt umhverfismál að ræða.