Félagslegt réttlæti á vinnumarkaði

Mánudaginn 15. mars 2004, kl. 15:20:37 (5297)

2004-03-15 15:20:37# 130. lþ. 83.1 fundur 406#B félagslegt réttlæti á vinnumarkaði# (óundirbúin fsp.), HHj
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 130. lþ.

[15:20]

Helgi Hjörvar:

Herra forseti. Það er nokkuð seint í rassinn gripið hjá hæstv. félmrh. að ætla að fara að dusta rykið af tilskipuninni eftir að við höfum neitað að taka hana upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Það er með hreinum ólíkindum að við skulum leggja sérstaka lykkju á leið okkar og að þetta skuli vera eina vinnuréttartilskipunin sem Íslendingar hafa ekki viljað taka upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, tilskipunin sem tryggir stöðu fatlaðra, tryggir að fólk sem er orðið miðaldra verði ekki látið gjalda aldurs síns og tryggir stöðu karla og kvenna á vinnumarkaði.

Ég hlýt að spyrja ráðherra jafnréttismála og málefna fatlaðra hvers vegna tilskipunin var ekki staðfest og tekin upp í samninginn, og ef hann sá á því einhverja tæknilega annmarka, hvers vegna hefur hann ekki komið fram með lög á þessu þingi sem tryggja launafólki á Íslandi sama félagslega réttlæti og launafólkið í Evrópusambandinu nýtur?