Lækkun smásöluálagningar lyfja

Mánudaginn 15. mars 2004, kl. 15:23:38 (5300)

2004-03-15 15:23:38# 130. lþ. 83.1 fundur 407#B lækkun smásöluálagningar lyfja# (óundirbúin fsp.), JGunn
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 130. lþ.

[15:23]

Jón Gunnarsson:

Herra forseti. Á sl. hausti fólu heilbr.- og trmrn. og Tryggingastofnun ríkisins Ríkisendurskoðun að kortleggja lyfjamarkaðinn á Íslandi. Markmið þeirrar vinnu var að skoða verðmyndun á lyfjakostnaði á Íslandi í samanburði við Norðurlönd og tilgangurinn að vinna tillögur að lækkun lyfjakostnaðar. Öll vitum við að lyfjakostnaður hefur verið að fara úr böndum og ekki óeðlilegt þó menn vilji skoða hvernig á því standi og hvernig hægt sé að grípa inn í það.

Ég veit að lyfjasmásalar hafa verið að vinna með Ríkisendurskoðun og lagt henni til upplýsingar um lyfjamarkaðinn og verðmyndunina á markaði, en segja má að það hafi komið öllum mjög á óvart þegar í ljós kom í síðustu viku að lyfjaverðsnefnd, undir forsæti Páls Péturssonar, kom fram með tillögur um lækkun á smásöluálagningu. Tillögur lyfjaverðsnefndar á þessum tímapunkti koma verulega á óvart því eftir því sem okkur skilst munu niðurstöður Ríkisendurskoðunar af þeirri vönduðu vinnu sem hún hefur lagt í, liggja fyrir jafnvel í næstu viku.

Afleiðingin af tillögunum, eins og þær liggja nú fyrir frá lyfjaverðsnefnd, er að framlegð smásalanna er að mestu leyti gerð upptæk. Apótekin segjast ekki hafa neitt svigrúm til að mæta þessu annað en að hækka verulega sjúklingahluta lyfja. Því veltir maður fyrir sér hvort verið sé í raun með tillögunum að fara bakdyramegin að því að koma auknum kostnaði yfir á sjúklinga. Við sem höfum fylgst með lyfjaverði og lyfjaumræðu vitum að það hefur farið í taugarnar á Tryggingastofnun, og kannski með réttu, að apótekin hafa gefið sjúklingum verulega afslætti af lyfjum á sama tíma og Tryggingastofnun hefur ekki notið afsláttar.

Þess vegna hlýtur maður að spyrja hvort þetta sé með vitund og vilja ráðherra og hvort eðlilegt sé af hálfu lyfjaverðsnefndar að koma með þetta núna.