Samningur ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Chiles

Mánudaginn 15. mars 2004, kl. 15:44:29 (5309)

2004-03-15 15:44:29# 130. lþ. 83.14 fundur 735. mál: #A samningur ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Chiles# þál., utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 130. lþ.

[15:44]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um heimild til handa ríkisstjórninni til að fullgilda fyrir Íslands hönd fríverslunarsamning milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) og Chiles sem undirritaður var í Kristiansand í Noregi í júní 2003. Samningurinn við Chile er einn víðtækasti samningur sem EFTA-ríkin hafa hingað til gert. Í samningnum er kveðið á um tollfrjáls viðskipti með sjávarafurðir frá og með gildistöku samningsins auk fríverslunar með langflestar iðnaðarvörur frá sama tíma.

Auk vöruviðskipta tekur samningurinn til þjónustuviðskipta, opinberra innkaupa, samkeppnismála og hugverkaréttinda. Samningurinn við Chile skapar ný viðskiptatækifæri fyrir íslensk fyrirtæki. Íslenskur útflutningur til Chile hefur farið vaxandi, m.a. á sviði véla og tækja til veiða og fiskvinnslu.

Samhliða þessum fríverslunarsamningi gerðu EFTA-ríkin hvert og eitt tvíhliða landbúnaðarsamning um tollalækkanir fyrir ýmsar óunnar landbúnaðarvörur eins og tíðkast hefur við gerð fríverslunarsamninga. Einnig var gerður tvíhliða fjárfestingarsamningur milli Íslands og Chile.

Að samningnum við Chile meðtöldum hafa EFTA-ríkin nú gert fríverslunarsamninga við 20 ríki. Samningaviðræðum við Líbanon er nýlega lokið og er stefnt að undirritun þess samnings á ráðherrafundi EFTA í júní nk. Viðræður við Kanada hafa staðið yfir um alllangt skeið, eins og kunnugt er, en einnig standa yfir samningaviðræður við Egyptaland, Túnis og Suður-Afríku.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögu þessari vísað til hv. utanrmn.