Frjáls atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES

Mánudaginn 15. mars 2004, kl. 16:24:17 (5317)

2004-03-15 16:24:17# 130. lþ. 83.16 fundur 736. mál: #A frjáls atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES# (frestun á gildistöku reglugerðar) frv. 19/2004, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 130. lþ.

[16:24]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. spyr hvort ég sé enn sömu skoðunar og ég var sl. haust. Já, ég er það. Ég tel koma til greina að ganga til lagasetningar af því tagi sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson lýsir.

Ég vil gera grein fyrir því, hæstv. forseti, að í kjölfar þeirrar umræðu sem átti sér stað á Alþingi sl. haust sendi ég öllum kollegum mínum á Evrópska efnahagssvæðinu, öllum þeim ráðherrum sem með þessi mál fara, bréf þar sem ég spurðist fyrir um það með hvaða hætti tekið væri á þeim málum sem hv. þm. reifar og hef þar með verið að afla mér upplýsinga um það, bæði með hvaða hætti tekið er á þeim og hvaða afstöðu menn hafa til þessara mála.

Ég hef sömuleiðis beitt mér fyrir því að í drögum að norrænni samstarfsáætlun sé fjallað um þessi mál á þeim vettvangi. Ég hef enn fremur óskað eftir því við aðila vinnumarkaðarins hérlendis að þeir geri grein fyrir afstöðu sinni.

Þessi svör eru smám saman að berast í félmrn. og ég skal játa að við erum rétt að byrja að vinna úr þeim. Þar með er ekki tímabært fyrir mig að lýsa því nákvæmlega hér og nú hver afdrif máls verða.

Ég vil hins vegar líka, hæstv. forseti, gera grein fyrir að í nýgengnum kjarasamningum á vinnumarkaði náðist samkomulag aðila vinnumarkaðarins um eftirlit með kjörum þeim sem hv. þm. gerði að umfjöllunarefni, þ.e. varðandi kjör starfsmanna hjá þeim fyrirtækjum sem eiga aðild að Samtökum atvinnulífsins. Við erum með til skoðunar núna í félmrn. í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins að festa í lög sams konar ákvæði og aðilar vinnumarkaðarins hafa þarna náð samkomulagi um gagnvart þeim fyrirtækjum sem ekki eru aðilar að Samtökum atvinnulífsins.