Frjáls atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES

Mánudaginn 15. mars 2004, kl. 16:30:00 (5320)

2004-03-15 16:30:00# 130. lþ. 83.16 fundur 736. mál: #A frjáls atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES# (frestun á gildistöku reglugerðar) frv. 19/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 130. lþ.

[16:30]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. félmrh. verður að gera sér grein fyrir því að ef hann stendur sig ekki vel þá verður hægt að snúa vönd úr þeim bréfum. Ég vona þó að ekki komi til þess.

Ég ítreka að mér finnst gott að hæstv. ráðherra skilur að þetta er ákveðið vandamál. Hins vegar tel ég nauðsynlegt að hafa lög sem fortakslaust banna að misbeita valdi gagnvart verkafólki, eins og gerst hefur í einhverjum mæli. Þeir samningar sem hafa verið gerðir fyrir atbeina verkalýðshreyfingarinnar sem gera okkur kleift að hafa betra eftirlit en áður með starfsmannaleyfum af þessu tagi duga ekki varðandi ákveðna hópa.

Ég óttast, herra forseti, að takist okkur ekki að ráða við þetta vandamál þá geti tvennt gerst. Í fyrsta lagi er grafið undan samkeppnishæfni íslensks vinnuafls og í öðru lagi grafið undan einum af þeim dásamlegu hlutum sem nútímafólki eru færðir með aðild okkar að EES, þ.e. ferðafrelsi sem er við lýði í krafti Schengen. Ég held nefnilega að ef sú þróun eykst sem ég hef gert að umtalsefni og aðeins glittir í, hún hefur ekki rutt sér til rúms en glittir aðeins í hana, þá verður næsta krafa verkalýðshreyfingarinnar eðlilega sú að tekin verði upp einhvers konar tilkynningarskylda gagnvart öllum sem koma hingað til lands. Þar með mun hið sama auðvitað líka gilda um okkur þegar við förum til annarra landa. Mér líst ekki á það og þess vegna hvet ég hæstv. ráðherra til þess að skoða málið niður í kjölinn og skoða það rækilega hvort ekki væri rétt að setja lög þannig að við höfum tæki til að taka hart á slíkum málum ef upp komast.