Frjáls atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES

Mánudaginn 15. mars 2004, kl. 16:32:16 (5321)

2004-03-15 16:32:16# 130. lþ. 83.16 fundur 736. mál: #A frjáls atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES# (frestun á gildistöku reglugerðar) frv. 19/2004, GAK
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 130. lþ.

[16:32]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Ég kem í pontu til þess að lýsa því yfir að ég styð það mál sem hér er lagt fram í frv. af hæstv. félmrh., um takmörkun á frjálsri för launafólks tímabundið til 1. maí. Ég styð það miðað við þær forsendur sem gengið er út frá í málinu, þ.e. sömu forsendum og ég gerði grein fyrir þegar rætt var um stækkun á Evrópska efnahagssvæðinu. Þar sem fjöldi ríkja innan Evrópusambandsins hyggst setja takmörk við frjálsa för launafólks þá tel ég eðlilegt að Íslendingar geri hið sama í svipaðan tíma. Samkvæmt frv. er þessi takmörkun til 1. maí 2006.

Ástæðan fyrir því að ég styð þessa aðgerð, þó ég sé almennt hlynntur frjálsri för launafólks, er einfaldlega sú að þar sem þetta gildir ekki almennt í löndunum væri hætt við því að straumurinn beindist til þeirra fáu landa sem láta mundu frjálsa för launafólks koma til framkvæmda þegar í stað. Þar af leiðandi gæti staða Íslands orðið mjög erfið. Ég tel óeðlilegt að taka þá áhættu meðan eigi liggur fyrir að allur markaðurinn verði opinn. Ég tel hins vegar að hefði vinnumarkaðurinn almennt verið opinn að þessu leyti þá hefðum við ekki átt að setja þessa bakvörn. Ég held að þá hefði ekki þurft að óttast mikið flóð launafólks til landsins. Dreifingin hefði orðið meiri og allt öðruvísi heldur en ef straumurinn hefði beinst að fáum löndum, sérstaklega að litlu landi og litlu atvinnusvæði eins og Íslandi.

Þetta er aðalástæðan fyrir því að ég tel eðlilegt að við höfum þennan fyrirvara og aðlögun. Almennt tel ég að svo hefði ekki átt að vera en reyna mætti að ná samtöðu um það með Evrópusambandsríkjunum hvenær þessari takmörkun verði aflétt þannig að við þyrftum ekki að setja takmörkun á frjálsa för launafólks á milli landa að þessu leyti.

Að öðru leyti vil ég taka undir það sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson vék að varðandi starfsmannaleigur. Hvernig má una við að á vinnumarkaði sé fólk sem fær laun sem eru önnur heldur við viljum að greidd séu hér á landi? Hvernig mun það þróast ef það fær að viðgangast að hér séu undirverktakar með starfsmenn og starfsmannahópa á vegum starfsmannaleigna sem séu í raun annar eða þriðji aðilinn að verkkaupum? Við gætum þess vegna hugsað okkur að íslenskt fyrirtæki byði í verk og fengi verkið en hefði á bak við samning um að inn komi fyrirtæki með ákveðna starfsmannahópa sem væru hér í ákveðinn tíma og á þeim grundvelli hefði eitt ákveðið fyrirtæki lægra tilboð heldur en önnur íslensk. Ég tek því undir þá umræðu sem hér hefur farið fram, að það þarf að skoða þetta mjög vandlega. Mér sýnist að þessi möguleiki sé opinn, að svona sé hægt að nota undirverktaka og starfsmannaleigur. Þess vegna fagna ég því sem kom fram í máli hæstv. ráðherra, að nauðsynlegt væri að taka á þessu. Ég held að það hljóti að vera ef við ætlum að tryggja að málin þróist ekki í þá veru sem ég hef lýst.