Frjáls atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES

Mánudaginn 15. mars 2004, kl. 16:37:16 (5322)

2004-03-15 16:37:16# 130. lþ. 83.16 fundur 736. mál: #A frjáls atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES# (frestun á gildistöku reglugerðar) frv. 19/2004, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 130. lþ.

[16:37]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þá málefnalegu og góðu umræðu sem farið hefur fram um þetta mál. Ég tek undir með hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni þegar hann segist þeirrar skoðunar að ef ekki hefði komið til takmörkun annarra þjóða á hinu Evrópska efnahagssvæði á frjálsri för launafólks frá hinum nýju sambandslöndum þá hefði ekki verið sérstök ástæða til að grípa til slíkra ráðstafana hér. Reyndin er hins vegar önnur og í ljósi þess, eftir að hafa átt samráð við aðila vinnumarkaðarins og reifað málið í ríkisstjórn, er niðurstaðan sú að við þessar aðstæður sé skynsamlegt, hæstv. forseti, að gera þessar breytingar á lögum okkar og takmarka frjálsa för, a.m.k. í þau tvö ár sem aðlögunartíminn gildir.

Hæstv. forseti. Ég ítreka þakkir mínar fyrir þessa umræðu og óska eftir að málið verði sent til 2. umr. og hv. félmn.