Afgreiðsla frumvarps um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

Þriðjudaginn 16. mars 2004, kl. 13:34:22 (5328)

2004-03-16 13:34:22# 130. lþ. 84.91 fundur 408#B afgreiðsla frumvarps um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu# (aths. um störf þingsins), umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 130. lþ.

[13:34]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Hæstv. forseti. Í ljósi niðurstöðu fundar Landeigendafélags Laxár og Mývatns á Narfastöðum fyrir stuttu var eðlilegt að láta þetta mál sem hér er til umræðu bíða og gefa mönnum tækifæri á að ræða saman ef þeir kjósa svo. Það er alveg skýrt að miðað við þessa stöðu er lagafrv. ekki á leiðinni að verða að lögum. Menn geta rætt saman ef þeir vilja. Það er búið að gefa út þá yfirlýsingu að málið í heild bíði og það er búið að ræða það í stjórnarflokkunum. Það er ekkert óeðlilegt við það í ljósi þessarar stöðu. Kjósi menn að ræða þetta heima í héraði geta þeir gert það án þess að verið sé að vinna í þessu máli sérstaklega í þinginu. Það er alveg skýrt miðað við þetta að frv. er ekki að verða að lögum. Stjórnarflokkarnir hafa meiri hluta og auðvitað halda þeir utan um mál eins og þeim þykir eðlilegast að halda á þeim.

Varðandi það hvort eitthvert bréf sé á leiðinni er ekkert bréf í smíðum enda hefur þessi yfirlýsing komið fram, bæði í fjölmiðlum og núna á Alþingi, úr pontu. Það er búið að ræða þetta mál í stjórnarflokkunum þannig að það er alveg skýrt að málið bara bíður. Aðilar geta talað saman ef þeir hafa hug á því og okkur liggur ekkert á að flýta okkur með þetta mál í gegn miðað við þessar aðstæður.