Afgreiðsla frumvarps um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

Þriðjudaginn 16. mars 2004, kl. 13:36:13 (5329)

2004-03-16 13:36:13# 130. lþ. 84.91 fundur 408#B afgreiðsla frumvarps um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu# (aths. um störf þingsins), HBl
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 130. lþ.

[13:36]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það er eðlilegt að þetta mál komi upp í umræðum um störf þingsins. Hér er um mjög flókið mál og viðkvæmt að ræða. Við stöndum frammi fyrir því að ef ekkert verður að gert hlýtur að koma að því fyrr en síðar að Laxárvirkjun verði lokað og ég hygg að enginn hv. þm. æski þess sérstaklega ef við hugsum um þá miklu byggðaþýðingu sem Laxárvirkjun hefur og hugsum um það reiðarslag sem það yrði fyrir Aðaldalshrepp og Þingeyinga. Það eru auðvitað takmörk fyrir því hversu mörg fyrirtæki er hægt að leggja niður í ekki stærra byggðarlagi en Þingeyjarsýslu.

Á hinn bóginn er alveg ljóst að ekki verður unnið að þessu máli nema í sátt og samlyndi meðal heimamanna og þeir hljóta nú að vinna að því að ná samkomulagi um það hvernig að þessu máli skuli unnið. Við stöndum frammi fyrir því að unnið hefur verið að endurbótum á undanförnum árum, ég hygg að Landsvirkjun hafi varið mjög háum fjárhæðum til þess að græða upp land við Kráká. Veiðifélög við Laxá hafa greitt milljónir kr. til hins sama með þeim góða árangri að svo hefur dregið úr sandburði að við getum sagt að Mývatnssveit sé borgið að þessu leyti. Við getum líka sagt að nú sé svo komið að Kráká er farin að grafa sig niður að sínum fyrra jarðvegi. Ég hygg að þeir sem kunnugir eru á þessum slóðum geri sér grein fyrir hvaða þýðingu það hefur ef hægt verður að halda þessu áfram og sandgildra komi í Kráká, og einnig ef hægt verður að draga úr sandburði í Laxá. Þetta er auðvitað mikið mál fyrir þá sem þarna búa.