Afgreiðsla frumvarps um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

Þriðjudaginn 16. mars 2004, kl. 13:38:17 (5330)

2004-03-16 13:38:17# 130. lþ. 84.91 fundur 408#B afgreiðsla frumvarps um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu# (aths. um störf þingsins), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 130. lþ.

[13:38]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Frú forseti. Staða þessa máls er afskaplega sérkennileg, jafnvel neyðarleg svo ekki sé enn fastar að orðið kveðið. Nú gerist það í annað skipti á örskömmum tíma að ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa áttað sig á villu síns vegar. Í fyrra tilfellinu, tilfelli hæstv. dómsmrh., var allshn. beðin um að draga til baka mál sem var fullkomlega vanbúið og var vakin athygli á við 1. umr. máls.

Nú gerist það í annað sinnið en með öllu óskýrari hætti. Hæstv. umhvrh. segir í einhverju blaðaviðtali að þetta mál megi bíða og endurtekur hér að yfirlýsingar hafi verið gefnar um þetta mál, að þingnefndin þurfi ekkert að sinna þeirri lögbundnu skyldu sinni að fara yfir og afgreiða mál frá sér.

Ég spyr: Hvaða yfirlýsingar eru það og í krafti og afli hvers? Nú er það einfaldlega þannig að málið er til umfjöllunar á hinu háa Alþingi en ekki á vettvangi ríkisstjórnar, ekki á vettvangi ráðherra, þannig að ráðherrann hefur strangt til tekið ekkert um það að segja hvort og hvernig nefnd, umhvn. í þessu tilfelli, fer áfram með málið. Þannig er það bara og það þýðir ekkert að vísa með almennum orðum til þess að ríkisstjórnin búi við þingmeirihluta.

Ef ráðherra vill láta á það reyna hvort hún hafi þingmeirihluta í þessu máli, sem lá aldrei fyrir, á hún auðvitað að senda bréf til umhvn. og biðja formanninn og nefndina alla að bíða með málið. Öðruvísi gerist það ekki. Ella eru þingmenn ekki að sinna skyldum sínum á hinu háa Alþingi í nefndum með því að fara ekki yfir málið og vinna það ekki eins og lög og reglur standa til. Hér verða mál einfaldlega að vera skýr. Við búum við þingræði og eigum að hegða okkur í samræmi við það. Einhverjar óljósar meldingar, umhvrh. í þessu tilfelli, duga ekki. Hæstv. ráðherra hefur ekkert um það að segja hvernig umhvn. vinnur. Hún verður þá að biðja um það og játa á sig þá sök að hún hafi farið offari og beðið nefndina um að bakka.