Afgreiðsla frumvarps um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

Þriðjudaginn 16. mars 2004, kl. 13:42:48 (5332)

2004-03-16 13:42:48# 130. lþ. 84.91 fundur 408#B afgreiðsla frumvarps um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu# (aths. um störf þingsins), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 130. lþ.

[13:42]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég held að enginn vafi sé á því að við búum við þingræði. Það er hins vegar spurning hvort það er ekki eðlilegt að sá sem flytur mál, hæstv. umhvrh. í þessu tilfelli, hafi eitthvað um það að segja eftir að það kemur inn í nefndina ef hún kýs svo. Í þessu tilfelli er málum þannig háttað að hæstv. umhvrh. hefur óskað eftir því að hv. nefnd hægi á ferðinni til þess að hugsanlega verði hægt að ná þarna samkomulagi í mjög viðkvæmu máli. Það er í raun ekki rétt að málið sé algerlega tvíþætt því að allt snýst það um verndun Laxár og Mývatnssvæðisins.

Þarna eru mörg sjónarmið uppi, ekki síst hjá heimamönnum. Málið væri einfaldara ef heimamenn hefðu bara eina skoðun en þær eru margar, það eru þeir sem búa í Skútustaðahreppi og óska eftir því að hafa meira svigrúm í sambandi við framkvæmdir, það sé ekki í raun eins og þeir búi í þjóðgarði, og það eru Laxárdælingar sem sumir hverjir vilja ekki hækka stífluna fyrir nokkurn mun. Svo eru það þeir sem vilja umfram allt losna við sandinn úr ánni o.s.frv. Ef hægt væri að ná því fram með einhverri aðgerð að allt þetta leystist væri það náttúrlega það besta. Þá er ég að tala um að það er hugsanlegt að með því að hækka stífluna um nokkra metra sé hægt að vinna að því að fanga sandinn ofar þannig að hann fari ekki í virkjunina og ekki niður ána og þar með væri sá vandi leystur og Skútustaðahreppur hefði aukið svigrúm í sambandi við framkvæmdir sínar o.fl. Þetta er mál sem þarf að ræða og við munum ekki leysa það, a.m.k. ekki hér í þingsalnum. Það þarf að ræða það milli heimamanna, milli fyrirtækisins Landsvirkjunar (Gripið fram í: Hvað var verið að tala ...?) og þar fram eftir götunum.