Afgreiðsla frumvarps um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

Þriðjudaginn 16. mars 2004, kl. 13:45:05 (5333)

2004-03-16 13:45:05# 130. lþ. 84.91 fundur 408#B afgreiðsla frumvarps um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 130. lþ.

[13:45]

Steingrímur J. Sigfússon:

Frú forseti. Málsmeðferð hæstv. umhvrh. og ríkisstjórnarinnar í málinu hefur verið óeðlileg frá upphafi og hefur vakið upp nákvæmlega það sem ég spáði fyrir við 1. umr. málsins, harðvítugum deilum, og ákvæði til bráðabirgða III er efni frv. um breytingu á lögum um verndun Laxár og Mývatns að öðru leyti óviðkomandi. Ég kallaði ákvæðið smyglgóss og stend við það. Þetta er virkjunarákvæði í verndunarfrumvarpi. Það var einhliða ákvörðun hæstv. ráðherra og ríkisstjórnar að tengja þessi tvö mál saman.

Það sem ríkisstjórnin er nú að reyna er ósköp einfalt. Það á að reyna að nota áhuga heimamanna, sérstaklega Mývetninga, á því að breyta gildissviði verndunarlaganna til að fleyta virkjunarheimildinni með í gegnum Alþingi. Þetta er augljóst hverjum manni og málsmeðferð sem er engum til sóma, allra síst hæstv. ríkisstjórn.

Svo vil ég segja það, frú forseti, að hæstv. umhvrh. og iðnrh. misskilja mjög stöðu sína gagnvart Alþingi. Málið er komið á forræði þingsins, er til umfjöllunar í þingnefnd, og hæstv. ráðherrum kemur það ekki við hvernig þingnefndirnar haga störfum sínum. Þær eru sjálfstæðar og til þess bærar að stjórna þeirri vinnu, jafnt hraða á afgreiðslu málsins sem öðru. Það eina sem flutningsmaður getur gert er að kalla frv. sitt til baka ef hann er hættur við það, ef hann vill ljúka þingmeðferðinni. Að öðru leyti eiga ráðherrar ekki að vera með puttana í því sem þingnefndirnar eru að gera. Nógur er yfirgangur framkvæmdarvaldsins samt gagnvart Alþingi.

Um málið er það að segja að það liggur fyrir að forsenda samstarfs við landeigendur er að ákvæði til bráðabirgða III fari út. (Forseti hringir.) Því hafa þeir lýst yfir á fundi og ályktað um það, þannig að þegar hæstv. ráðherrar tala um samkomulag liggur alveg fyrir í hverju lausn málsins er fólgin. Það er að kasta út ákvæði til bráðabirgða III. Þá geta menn farið að tala saman.