Afgreiðsla frumvarps um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

Þriðjudaginn 16. mars 2004, kl. 13:52:08 (5337)

2004-03-16 13:52:08# 130. lþ. 84.91 fundur 408#B afgreiðsla frumvarps um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu# (aths. um störf þingsins), MÁ
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 130. lþ.

[13:52]

Mörður Árnason:

Forseti. Stóryrði hafa fallið í málinu af hálfu hv. 2. þm. Norðaust., en ekki annarra sem hér hafa talað.

Hins vegar er staða málsins ósköp einfaldlega sú að landeigendur við Laxá og Mývatn hafa sagt: Við tökum ekki þátt í viðræðum við Landsvirkjun nema bráðabirgðaákvæði III sé úti. Skútustaðahreppur, sem hefur mikla hagsmuni af frv., hefur samþykkt í hreppsnefndinni áskorun til okkar um að taka bráðabirgðaákvæðið út þannig að þeirra hagsmunamál geti gengið fram, fengið eðlilega umfjöllun með Dimmuborgum og hvaðeina. Undir þetta hefur t.d. búnaðarþing tekið og allir skynsamir menn eins og eðlilegt er. Hæstv. umhvrh. hefur klúðrað bráðabirgðaákvæði III, sem hún með einhverjum hætti var rekin til að fara í eða taldi sig knúna til að koma með fyrir þingheim. Henni er sæmst að kalla það aftur með þeim eina hætti sem ráðherra getur kallað slíkt aftur, með því að biðja nefndina með formlegum hætti að fjalla ekki um málið, á sama hátt og hæstv. dómsmrh. gerði, með akvont frv. sem honum var sýnt að væri, og hafði manndóm í sér til þess, sem er hrósvert, að kalla það aftur með þeim hætti. Það gerði hæstv. umhvrh. ekki.

Það verður ekki skilið nema á einn hátt. Annars vegar ætlar hún að hafa bráðabirgðaákvæði III hangandi í frv. sem einhvers konar svipu á landeigendur til þess að knýja þá áfram í málinu, gegn vilja þeirra, og annars vegar vonast hún til þess og væntanlega hæstv. iðnrh. með henni, eins og hún talaði áðan, að þeir í Mývatnssveit og annars staðar verði annar þrýstiaðili á landeigendur við Laxá og Mývatn til að koma þeim til samninga við Landsvirkjun. Þetta er svona, og hæstv. umhvrh. er ekki sómi að því.

Það sem við samfylkingarmenn munum hins vegar gera í umhvn., ef við fáum nokkru um það ráðið, er að halda áfram eðlilegri umfjöllun um frv. sem nú er flutt í annað skipti, en láta bráðabirgðaákvæðið eiga sig til eilífrar skammar fyrir þann hæstv. umhvrh. sem það flutti.