Norræna ráðherranefndin 2003

Þriðjudaginn 16. mars 2004, kl. 14:29:15 (5346)

2004-03-16 14:29:15# 130. lþ. 84.9 fundur 579. mál: #A Norræna ráðherranefndin 2003# skýrsl, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 130. lþ.

[14:29]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alls ekki þannig að vægi Norðurlandaráðs fari minnkandi. Samstarf ráðherranefndanna og Norðurlandaráðs hefur verið mjög gott. Að mínu mati hefur það samstarf verið að styrkjast á síðustu árum. Ég get m.a. bent á að tilmæli Norðurlandaráðs eru tekin miklu fastari tökum en áður fyrr, þ.e. svokölluðum ,,rekommendasjónum`` eða tilmælum ráðsins.

Þótt hv. þm. finnist kaflinn sem þetta varðar stuttur þá eru það alls ekki skilaboð um að samstarfið sé minnkandi. Að mínu mati hefur það styrkst hin seinni ár og ég tel mjög gott að svo sé. Það er mjög mikilvægt að gott samstarf sé á milli Norðurlandanna og ráðsins. Allir þessir aðilar vilja stuðla að norrænu samstarfi, bæta það og láta það snúa að þeim hagsmunum sem eru sameiginlegir þessum löndum.