Norræna ráðherranefndin 2003

Þriðjudaginn 16. mars 2004, kl. 14:32:40 (5349)

2004-03-16 14:32:40# 130. lþ. 84.9 fundur 579. mál: #A Norræna ráðherranefndin 2003# skýrsl, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 130. lþ.

[14:32]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, svæðisbundið samstarf hefur vaxið, m.a. út af stækkun Evrópusambandsins. Maður getur t.d. litið bara til Norðurlandanna sjálfra. Samstarfið sem við höfum átt innan okkar svæðis, þ.e. innan Norðurlandanna, hefur aukist og komist meiri kraftur í það vegna stækkunar Evrópusambandsins. Maður sér að það er miklu líklegra að menn nái fram hagsmunum sínum ef þeir standa saman og eftir því sem ríkin verða fleiri eykst áherslan á það að menn þjappi sér saman um hagsmunamál sín.

Við getum líka séð þetta gagnvart Eystrasaltsríkjunum. Þegar menn sáu að ESB var að stækka til austurs, þ.e. Eystrasaltsríkin voru að fara inn, --- reyndar út af mörgum öðrum atriðum eins og öryggismálum og almennri lýðræðisþróun, en líka út af stækkun ESB --- þá juku Norðurlöndin svæðasamstarf sitt við Eystrasaltsríkin. Á sínum tíma var það samstarf mjög lítið. Það var lítið sem ekkert auðvitað á Sovéttímanum. En eftir að Sovétríkin féllu þá jókst þetta svæðasamstarf mjög mikið og mun verða áfram sterkara í framtíðinni af því að hagsmunir Norðurlandanna og hagsmunir Eystrasaltsríkjanna fara að verulegu leyti saman.

Varðandi hitt atriðið sem hv. þm. nefndi, hlýnun á norðurhveli, þá hefur það komið fram nokkrum sinnum í umræðum á Alþingi að loftslag hlýnar tvisvar sinnum meira í kringum norðurheimskautið en hnattrænt. Við höfum vaxandi áhyggjur af því. Það er verið að rannsaka þau mál. Að því koma norrænir rannsóknaraðilar. Ég vil líka nefna hér að undir Norðurskautsráðinu eða arktíska ráðinu er verið að vinna núna mikla skýrslu um þessi mál.