Norræna ráðherranefndin 2003

Þriðjudaginn 16. mars 2004, kl. 14:54:10 (5353)

2004-03-16 14:54:10# 130. lþ. 84.9 fundur 579. mál: #A Norræna ráðherranefndin 2003# skýrsl, MÞH
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 130. lþ.

[14:54]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Ég vil fá að hefja mál mitt á því að þakka hæstv. samstarfsráðherra Norðurlanda, Siv Friðleifsdóttur, fyrir ágætisskýrslu. Norðurlandasamstarfið hefur alltaf vakið áhuga minn þó að því miður hafi minn litli flokkur ekki fulltrúa í íslenska þingmannahópnum sem starfar innan Norðurlandaráðs. Það stendur vonandi til bóta. Ef flokkurinn nær að stækka munum við taka þar fullan þátt. (Gripið fram í.) Það væri kannski hægt að segja sig úr flokknum og ganga í annan flokk. Nei, ætli það. Nóg um það.

Þetta Norðurlandasamstarf eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon benti á áðan hefur lifað af þó að heimurinn hafi breyst mikið á undanförnum árum og sé alltaf í stöðugri breytingu. Ég sé á skýrslunni að Íslendingar hafa tekið við formennsku í norrænu ráðherranefndinni á þessu ári og það er að sjálfsögðu mjög jákvætt. Það er líka lögð áhersla á hluti varðandi auðlindir Norðurlandanna. Hér er t.d. greint frá því að útbúin hafi verið samræmd verkefnaáætlun sem var kynnt á Norðurlandaráðsþingi í október undir fyrirsögninni Auðlindir Norðurlanda -- lýðræði, menning og náttúra. Þetta vekur áhuga minn. Einnig sameiginleg þátttaka í heimssýningunni í Japan árið 2005.

Það sem ég ætlaði að gera að umræðuefni hér, hæstv. forseti, er starf innan norrænu ráðherranefndarinnar varðandi sjávarútvegsmál sem ég hef kynnst svolítið í gegnum störf mín. Ég hef fylgst með því á undanförnum árum. Ég sé að lögð er aukin áhersla á samstarf við nágranna okkar í norðvestri og það er mjög jákvætt en ef við skoðum vinnu varðandi umhverfismálin langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra nokkurs. Ef við lítum á bls. 56, lið e, sjáum við að það hefur þurft að koma í veg fyrir tvíverknað af hálfu samstarfsnefndar umhverfis- og sjávarútvegsmála hvað varðar umhverfismerkingar en einnig að stöðva verkefni um skráningu fisks í meintri útrýmingarhættu. Þetta er einhver ný lenska sem hefur verið tekin upp á undanförnum árum í mörgum löndum, menn hafa verið að flokka hina og þessa fiskstofna í rautt, gult og grænt. Fiskstofnar í rauða hópnum eru þá taldir vera í útrýmingarhættu. Gulir eru á einhvers konar gráu svæði og síðan mun vera óhætt að veiða úr grænum fiskstofnum og neyta þeirra.

Mér finnst þetta stórvarasöm þróun. Þarna er verið að einfalda hlutina oft og tíðum allt of mikið og það væri gaman að fá að heyra hvort það hafi verið komið í gang einhvers konar svona starf innan Norðurlandaráðs sem mér finnst nánast eiginlega með ólíkindum. Einnig væri ágætt að heyra frá hæstv. ráðherra eitthvað um hvernig gengur varðandi svokallaðar umhverfismerkingar. Þar höfum við t.d. samtök sem heita Marine Stewardship Council. Þau hafa pressað mikið á það að fiskstofnar yrðu vottaðir og umhverfismerktir og þau hafa mikið reynt að stíga m.a. í vænginn við okkur á Íslandi til að reyna að fá okkur með í þetta samstarf.

Norræna ráðherranefndin hefur unnið svolítið í þessu á undanförnum árum og það væri ágætt ef hæstv. ráðherra gæti kannski upplýst okkur aðeins meira um það hvað þessu starfi líður því að þarna er á ferðinni þróun sem við hljótum að verða að taka afstöðu til fyrr eða síðar.

Annars langaði mig svolítið til að koma inn á einmitt þetta með fiskveiðar. Þær skipta þó nokkuð margar Norðurlandaþjóðanna, a.m.k. okkur Færeyinga, Íslendinga og Norðmenn, mjög miklu máli og eru líka mikilvægar á vissum svæðum í Danmörku. Mig langar til að varpa fram þeirri hugmynd hvort ekki sé rétt að haldin verði sameiginleg norræn ráðstefna um fiskveiðar og fiskveiðistjórn. Það er löngu orðið tímabært að það verði gert og það er sjálfsagt mál að norræna ráðherranefndin sem hefur verið töluvert þung innan fiskveiða fari í þá vinnu og láti halda svona ráðstefnu hið allra fyrsta. Því miður er mikil kreppa í fiskveiðum, t.d. í Norðursjó. Þar er allt í kaldakoli og Danir eru í miklum vandræðum með fiskiflota sinn. Menn telja þar að botnfisksstofnar séu að hruni komnir og það verði að gera eitthvað. Það eru áhöld um hvort það sé rétt eða ekki.

Við Noreg eru furðulegir hlutir að gerast. Þar er allt í einu allt fullt af fiski, mikil þorskgengd sem átti varla að vera til fyrir nokkrum árum ef marka mátti fiskifræðinga.

Við Færeyjar er ástandið mjög gott. Nýlega hefur komið fram á Íslandi að færeyski þorskstofninn er talinn vera sá best haldni í öllu Norður-Atlantshafi. Það er þvert á spár fiskifræðinga líka sem hafa í mörg herrans ár varað við ofveiði við Færeyjar og talið að þar væri allt að fara á vonarvöl vegna þess að menn hlustuðu ekki á fiskifræðinga og vegna þess að menn tækju ekki upp kvótakerfi, og allra helst að fyrirmynd Íslendinga.

[15:00]

Það eru meira að segja mjög jákvæðar fréttir sem berast frá Færeyjum núna. Í nýjasta tölublaði Fiskifrétta var greint frá því að meðal tíu landa væri aflaverðmæti á hvern sjómann hæst í Færeyjum, 21,4 millj. Ísland er í öðru sæti með 16,3 millj. á hvern sjómann.

Ef við skoðum síðan fjölda sjómanna hefur fjöldi sjómanna í Færeyjum verið mjög stöðugur undanfarin ár. Þeir eru frá 2.500--3.000. Á Íslandi hefur sjómönnum fækkað um 21% frá árinu 1994. Í Noregi hefur sjómönnum fækkað um 34% á sama tímabili, þ.e. frá 1994.

Á Íslandi er mikið rætt um stöðugleika, þörfina á stöðugleika, að það þurfi að vera stöðugleiki í sjávarútveginum og menn þurfi að hagræða. Ég vildi leyfa mér að kalla eftir þessum stöðugleika og þessari hagræðingu þegar við sjáum að við Ísland eru flestir botnfiskstofnar í sögulegu lágmarki þrátt fyrir 20 ár með kvótakerfi, sjómönnum hefur hríðfækkað og því spyr ég: Er það endilega þjóðhagslega hagkvæmt að við fækkum þeim sem hafa lífsviðurværi sitt af helstu auðlind þjóðarinnar? Er það ekki miklu meiri stöðugleiki að sem flestir geti starfað við þessa undirstöðuatvinnugrein og haft af henni tekjur og það meira að segja rífandi góðar tekjur eins og staðreyndin virðist vera í Færeyjum?

Hér eru atriði sem þyrfti að skoða alvarlega og eins og ég sagði áðan held ég að það væri mjög þarft verk ef slíkri ráðstefnu yrði komið á hið allra fyrsta þannig að við fengjum heildarmynd, fengjum að heyra hjá frændum okkar og vinum í nágrannalöndunum hvaða reynslu þeir hafa, menn geti borið saman bækur sínar og þá gætum við t.d. á Íslandi kannski gert okkur betur grein fyrir því eftir á hvað við höfum verið að gera rangt og hvað við höfum hugsanlega verið að gera rétt. Reyndar hef ég ákveðinn grun um að við höfum verið að gera ansi mikið rangt þegar við sjáum hvernig staðan er hér með hrikalegri skuldasöfnun sjávarútvegsins sem kannski hefur aldrei verið jafnbrjálæðisleg og á undanförnum vikum, með stöðugt færri sjómenn, stöðugt fleiri sjávarbyggðir sem lenda í miklum vandræðum og almenn hnignun, ef svo má segja, á landsbyggðinni á meðan t.d. í Færeyjum ríkir sátt og velmegun. Þar er nóg af fiski, nóg vinna og allir ánægðir.