Norræna ráðherranefndin 2003

Þriðjudaginn 16. mars 2004, kl. 15:03:17 (5354)

2004-03-16 15:03:17# 130. lþ. 84.9 fundur 579. mál: #A Norræna ráðherranefndin 2003# skýrsl, umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 130. lþ.

[15:03]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir umræðurnar sem hér hafa orðið en af þeim má skilja að norrænt samstarf nýtur mikils velvilja í þinginu eins og vitað var. Í þeim ræðum sem hér hafa verið haldnar hefur komið fram að það er almennur stuðningur við áherslur okkar á aukið vestnorrænt samstarf og vestnorrænt samstarf til vesturs þar að auki. Þó hafa komið upp nokkrar spurningar og ég ætla að freista þess að reyna að svara þeim.

Í fyrsta lagi spurði hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon um samgönguúttektina sem ég kom inn á í framsögu minni. Málin eru þannig stödd að verið er að gera úttekt á samgöngumálum milli vestnorrænu landanna innbyrðis og svo milli þeirra og annarra landa. Það verkefni er nú þegar hafið og það er Háskólinn á Akureyri sem annast þá úttekt og hún á að liggja fyrir í sumar. Meiningin er að kynna úttektina á fundi samgönguráðherranna sem mér skilst að eigi að vera á Egilsstöðum í lok ágúst, 23.--24. ágúst. Frétta er því að vænta af þessari samgönguúttekt á þeim fundi eins og áætlanir miða að.

Hv. þm. kom líka inn á hið mikla starf varðandi landamærahindranirnar og að það sé að vissu leyti hálfneyðarlegt hve þær voru margar þegar farið var yfir það mál og það er alveg rétt. Ég vil draga það fram sérstaklega að verkefnið ,,Hallo Norden`` hefur verið mjög gott í því að skilgreina þessar landamærahindranir, en verkefnið felst í því að fólk getur hringt í ákveðið símanúmer og því er svarað. Það eru norrænu félögin sem sinna því verkefni, og fólk fær svör varðandi ýmsar hindranir sem á vegi þess verða þegar Norðurlandabúar fara á milli Norðurlandanna. Verkefnið ,,Hallo Norden`` hefur því hjálpað okkur við að skilgreina þessar hindranir.

Hér á Íslandi sáum við ástæðu til þess, eins og reyndar var gert víðar, að halda sérstök námskeið fyrir embættismenn til að upplýsa um stöðu norrænna samninga og hvernig aðstoða mætti fólk í gegnum þessar hindranir. Einhverjar hindranir er því hægt að skrifa á þekkingarleysi embættismanna í kerfinu, en vonandi minnka þær núna þegar við höfum haldið slík námskeið sérstaklega fyrir þá.

Varðandi það sem kom fram í máli hv. þm. Magnúsar Þórs Hafsteinssonar um ýmis sjávarútvegsmál þá er alveg ljóst að við Íslendingar höfum að vissu leyti sett sjávarútvegsmálin á oddinn í formennskuáætlun okkar. Við teljum að samræma eigi upplýsingar um sjálfbæra nýtingu sjávarauðlinda, efnainnihald í sjávarfangi og merkingu og rekjanleika sjávarafurða. Þessar upplýsingar mætti varðveita í samræmdum gagnabanka þar sem leita mætti upplýsinga um sérstöðu ólíkra hafsvæða og tegunda. Sjávarútvegsráðherrar landanna eru að skoða þetta mál og það tengist auðvitað því sem hv. þm. kom inn á, það kemur fram á bls. 56 í skýrslunni um skráningu fisks í meintri útrýmingarhættu sem er auðvitað mikið og vandasamt verk og má auðvitað alls ekki leiða til þess að menn misskrái fisktegundir. Það er einmitt það sem við höfum verið svo hrædd við í íslenskum sjávarútvegi.

Varðandi það hvort eitthvert slíkt samstarf eða starf hafi verið unnið á vettvangi Norðurlandráðs þekki ég ekki beint og tel eðlilegt að hv. þm. grennslist fyrir um það sérstaklega hjá sjútvrh., ef hugur hans stendur til þess, þar sem ég get ekki farið mjög djúpt ofan í þá vinnu sem norræna embættismannanefndin vinnur að varðandi fisk eða sjávarútveg. Ég hef því ekki upplýsingar um hvað hún er komin langt með þau mál eða hvort eitthvað hafi verið unnið að þeim á vettvangi Norðurlandaráðs.

Ég vil þó segja að ég tek undir það sem kemur fram hjá norrænu embættismannanefndinni um að það sé meiri áhersla almennt á að merkja matvæli, að merkja fisk gagnvart innihaldi, og það er auðvitað framtíðin, neytendur vilja fá merkingar og vilja vita um efnainnihald þeirrar vöru sem þeir neyta. Þeir vilja líka vita um umhverfismálin á bak við hana og hvernig fisksins eða matar er aflað. Þetta er mjög jákvæð þróun og mun auðvitað styrkja allt umhverfisstarf í framtíðinni.

Hæstv. forseti. Að öðru leyti vil ég þakka fyrir þessar umræður og tel að þær hafi verið mjög gagnlegar.