Norrænt samstarf 2003

Þriðjudaginn 16. mars 2004, kl. 15:33:46 (5361)

2004-03-16 15:33:46# 130. lþ. 84.10 fundur 688. mál: #A norrænt samstarf 2003# skýrsl, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 130. lþ.

[15:33]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Virðulegi forseti. Í kjölfar ræðu formanns Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, hv. þm. Jónínu Bjartmarz, er fjallaði um starfsemi Íslandsdeildarinnar, vil ég greina örstutt frá því starfi sem ég kom að í menningar- og menntamálanefnd ráðsins. Samstarf á sviði mennta- og menningarmála hefur löngum verið hornsteinn norræns samstarfs og e.t.v. sá þáttur þess sem eflir hvað mest norræna samkennd. En ég sat í mennta- og menningarmálanefndinni fram að síðustu áramótum, frá því í maí.

Menningar- og menntamálanefnd annast breitt svið málefna sem varða menningu og listir á Norðurlöndum og á alþjóðavísu, fjölmenningarleg Norðurlönd, kvikmyndir og fjölmiðla, tungumál, íþróttir, óháð félagasamtök, menningu barna og unglinga, grunnmenntun, framhaldsmenntun, fullorðinsfræðslu, rannsóknir, menntun vísindamanna og fræðimannaskipti.

Á starfsárinu 2003 beindi nefndin m.a. sjónum að aðstæðum til vísindarannsókna, sér í lagi möguleikum á samvinnu mennta- og rannsóknasvæða á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum. Þá voru íþróttir til umfjöllunar sem leið til aðlögunar ungra nýbúa að norrænum samfélögum og tungumálastefna og staða norrænna tungumála voru einnig á dagskrá nefndarinnar.

Á sumarfundi nefndarinnar sem haldinn var í Færeyjum sl. sumar, kynntu sérfræðingar frá Noregi og Svíþjóð reynslu þessara landa af íþróttum sem leið til að blanda nýbúabörnum betur inn í samfélagið. Þeir nefndu bæði kosti og galla við að beita þessari aðferð, nefndu t.d. hversu mikilvægt það stöðutákn er þegar keyptir eru erlendir leikmenn í Norðurlandaliðin, eða jafnvel bresku fótboltaliðin, og hvaða áhrif það hefði á nýbúabörnin að geta tekið þátt í íþróttum með þær fyrirmyndir. Sömuleiðis var tekið á ýmsum vandamálum eins og þeim að múslimskar stúlkur búa við mjög stranga hefð um klæðnað og ýmislegt fleira sem snýr að þeim trúarbrögðum.

Það er ýmislegt í reynslu bæði Svía og Norðmanna, að nota íþróttirnar sem leið til að blanda nýbúabörnunum betur inn í samfélagið, sem við gætum vel tekið okkur til fyrirmyndar, en það er of langt mál að að rekja það í þessari stuttu yfirferð.

Hér á undan nefndi bæði formaður Íslandsdeildar og norræni samstarfsráðherrann í umræðunni um skýrsluna stöðu Vestur-Norðurlanda í ræðum sínum. Mennta- og menningarmálanefnd beindi sjónum sínum að málefnum svæðisins og hélt sumarfund sinn í Færeyjum eins og ég nefndi áðan, þar sem menning og tungumál Vestur-Norðurlanda voru í brennidepli. Þar var fjallað m.a. um stöðu vestnorrænu tungumálanna á tímum hnattvæðingar og málstefnu stjórnvalda á Vestur-Norðurlöndum og í hvaða mæli önnur norræn tungumál væru kennd á svæðinu. Átti nefndin m.a. fund með menntamálanefnd Lögþingsins í Færeyjum og heimsótti ýmsar menningarstofnanir.

Þá hélt menningar- og menntamálanefnd málstofu um klámvæðingu í tengslum við septemberfund Norðurlandaráðs. Þar fjallaði fagfólk á því sviði um hvernig greiðara aðgengi að klámi, m.a. á netinu, hefur áhrif á viðhorf æskufólks til þess hvað það teldi eðlilegt og hvað ekki í kynferðismálum. Einnig var rætt hvernig klámvæðingin hefur haft áhrif á jafnrétti kynjanna og hvernig hún kæmi mismunandi niður á drengjum og stúlkum.

Þá var fjallað um tengsl kláms og fjölgun kynferðisglæpa og loks var kynnt átaksverkefni frá Noregi þar sem brugðist var við aukinni klámvæðingu með fræðslu og umræðuverkefnum í skólum. Ungt fólk sá um þessi verkefni og þarna er á ferðinni mjög áhugaverð aðferð til að vekja ungt skólafólk til umhugsunar um eðlilegt kynlíf annars vegar og hins vegar klám og kynferðislega áreitni.

Verðlaun Norðurlandaráðs á menningarsviðinu eru tvenn, bókmenntaverðlaun og tónlistarverðlaun. Bókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs hefur verið úthlutað á hverju ári frá 1962 og eru þau veitt fyrir bókmenntaverk á norrænu tungumáli. Markmið verðlaunanna er að auka áhuga á norrænum bókmenntum. Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs voru fyrst veitt árið 1965. Fram til ársins 1988 voru þau einungis afhent annað hvert ár, en frá 1990 hafa þau hins vegar verið veitt árlega, annað árið til tónskálda og hitt árið til tónlistarflytjanda.

Ég get ekki stillt mig um að nefna að samíski listamaðurinn Mari Boine hlaut verðlaunin 2003, en hún hélt einmitt tónleika hér á landi í febrúar sl., sælla minninga, og komust færri að en vildu. Hún hefur lofað að koma hingað aftur til að bæta úr því fyrir þá sem ekki komust á tónleikana. Síðastliðna áratugi hefur nýjum kynslóðum tónlistarmanna og tónskálda tekist að endurnýja tónlist Sama með djarflegri tilraunastarfsemi og þar hefur Mari Boine verið í fararbroddi. Það er ekki auðvelt að setja tónlist hennar í ákveðinn bás, en undirstaðan er samískt jojk, en auðveldlega má greina áhrif afrískra rytma, heimstónlistar og rokk-fönks í tónlist hennar. Ég verð að segja að það var alveg sérstök upplifun að hlusta á Mari Boine flytja tónlist sína á Norðurlandaráðsþinginu í vetur.

Virðulegi forseti. Ég nefni þessi verðlaun nú því á starfsárinu 2003 var mikil umræða í menningar- og menntamálanefnd og forsætisnefnd um að koma á fót þriðju verðlaununum fyrir kvikmyndir. Það var gert og kom það í minn hlut að mæla fyrir áliti menningar- og menntamálanefndar á Norðurlandaráðsþinginu í Ósló í byrjun nóvember sl. Nefndin taldi tímabært að stofna til verðlauna fyrir kvikmyndamiðilinn, enda óumdeilt að Norðurlönd standa mjög framarlega í kvikmyndagerð. Innan Norðurlanda munu verðlaunin vekja athygli á norrænum kvikmyndum og norrænni menningu almennt, auk þess sem þeim er ætlað að styrkja stöðu norrænna kvikmynda á heimamörkuðum. Mikilvægast er að kvikmyndir, sem er helsti afþreyingarmiðill ungs fólks, gætu aukið áhuga nýrra kynslóða á bræðraþjóðum og norrænni menningu. Utan Norðurlanda munu hin nýju verðlaun vekja athygli á norrænum kvikmyndum og norrænni menningu og gætu orðið til þess að auðvelda dreifingu norrænna kvikmynda á alþjóðamarkaði.

Mig langar til að nefna í þessu sambandi að norræn kvikmyndastefna eða -mót hafa verið haldin fyrir ungt fólk á vegum Norðurlandaráðs. Síðast var slík hátíð haldin í Tromsö 13.--17. ágúst sl. Þar vann ungt fólk frá Norðurlöndunum saman að kvikmyndagerð undir leiðsögn hæfra kvikmyndagerðarmanna. Að vinnu lokinni sýndu þau afraksturinn á kvikmyndahátíð ungs fólks sem þau kölluðu ,,NUFF`` eða ,,Nordisk Ungdoms Filmfestival``. Verkefnið var kynnt á Norðurlandaráðsþinginu í vetur og myndirnar sýndar þeim sem áhuga höfðu á því. Það var einn Íslendingur með í hópnum, en alls voru þátttakendur 32 sem störfuðu saman í fimm hópum og gerði hver hópur eina stuttmynd á kvikmyndahátíðinni.

Á hátíðinni í Tromsö voru veitt verðlaun í þremur aldursflokkum: 15--17 ára, 18--20 ára og 21--25 ára og mjög ánægjulegt að það var Íslendingur, Sigurður Orri Þórhannesson, sem fékk verðlaunin í elsta aldurshópnum fyrir stuttmynd, teiknimynd, sem hann nefnir ,,Le Mime``, en mynd hans var valin úr hópi 40 stuttmynda sem sendar voru á hátíðina frá öllum Norðurlöndunum, en 20 þeirra voru sendar áfram til keppni. Þarna var ekki aðeins á ferðinni kvikmyndahátíð heldur var boðið upp á ýmsa aðra menningarviðburði, svo sem rokktónleika. Ég vona að fleiri ungmenni frá Íslandi eigi þess kost að taka þátt í verkefni sem þessu því þarna var greinilega á ferðinni frjótt og skemmtilegt nám og starf.

Svo vil ég nefna Nordjobb sem hefur aðeins verið til umræðu í menningar- og menntamálanefndinni. Fleiri tækifæri fyrir ungt fólk mætti auðvitað nefna, en það væri of langt mál í þessari stuttu yfirferð.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar, en taldi rétt að gefa þingheimi stutt yfirlit yfir starfsemi menningar- og menntamálanefndar Norðurlandaráðs og það góða starf sem þar fer fram.