Norrænt samstarf 2003

Þriðjudaginn 16. mars 2004, kl. 15:44:07 (5362)

2004-03-16 15:44:07# 130. lþ. 84.10 fundur 688. mál: #A norrænt samstarf 2003# skýrsl, SJS
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 130. lþ.

[15:44]

Steingrímur J. Sigfússon:

Frú forseti. Það má segja um norrænt samstarf að þar gildi hið fornkveðna að engar fréttir séu góðar fréttir, að norrænt samstarf gangi sinn vanagang og ekki sé við nein sérstök vandamál að etja. Það þýðir ekki það sama og að ekki sé verið að vinna hið merkasta starf, þó hinu sé ekki að neita að að ósekju mætti, að mínu mati og væntanlega fleiri sem því tengjast beint sem fulltrúar Alþingis, vera meiri umfjöllun um það sem þar er á baugi. Nokkur hætta er á því satt best að segja að almenningur gleymi eða átti sig ekki á hversu umfangsmikið og víðtækt norrænt samstarf er á fjölmörgum sviðum, ekki síst á meðal almennings eða á grasrótarplani ef svo má að orði komast, því minnstur hluti hins norræna samstarfs er í raun og veru sýnileg samvinna þjóðþinga og ríkisstjórna þó hún sé til umræðu hér.

[15:45]

Það er þvert á móti þannig að hin rótgróna og umfangsmikla samvinna félagasamtaka og ýmissa aðila á faglegum forsendum, aðila vinnumarkaðar, fyrirtækja o.s.frv. er stærstur hlutinn af hinni almennu snertingu Norðurlandanna. Það taka menn meira og minna sem gefið og þess vegna er nokkur hætta á því að þegar engin sérstök tíðindi eru þar á ferð falli þetta svolítið í skuggann.

Einn angi hins norræna samstarfs sem mikilvægt er að hlúa að eru norrænu félögin sjálf sem hafa það hlutverk að tengja saman almenning eða áhugafólk almennt um norræna samvinnu. Þeim er ætlað veigamikið hlutverk í hinu norræna skipulagi og ástæða til að minna á norrænu félögin hér og reyndar líka hægt að fagna því að á Alþingi var við afgreiðslu síðustu fjárlaga skilningur á mikilvægi þess að búa þannig að Norræna félaginu á Íslandi að það gæti sinnt sínu mikilvæga hlutverki og samstaða um að auka svolítið fjárveitingar eða stuðning Alþingis við félagið, sem ég held að hafi verið tímabært og rúmlega það.

Sá sem hér talar starfar í Flokkahópi vinstri grænna í Norðurlandaráði. Sá flokkahópur breytti reyndar nafni sínu á síðasta ári og tók upp það sem hann nú heitir, Flokkahópur vinstri grænna. Þar er um að ræða minnsta skipulagða flokkahópinn --- en auðvitað þann duglegasta --- með á milli 10%--15% af kjörnum fulltrúum í Norðurlandaráði, en allmargir, sem endurspegla sæmilega stærð flokkanna á norrænu þjóðþingunum, sem margir eru með á milli 10%--12%, 10--15% fylgi, með undantekningum þó í Grænlandi og Færeyjum þar sem flokkar sem tengst hafa flokkahópi vinstri sósíalista eða vinstri grænna sósíalista í Norðurlandaráði hafa fylgi á milli 20%--30% og eru í hópi stærstu flokka í þeim löndum.

Allmargir þingmenn kjósa að starfa utan flokka og mynda, má segja, fimmta hópinn í norræna samstarfinu, en eins og menn þekkja ugglaust hefur skipulögð samvinna flokkanna gegnt æ vaxandi eða veigameira hlutverki. Þeir eru núna á margan hátt í meira mæli kjölfestan í pólitísku starfi Norðurlandaráðs og undirbúningur undir málflutning og ákvarðanatöku í Norðurlandaráði sjálfu fer í miklu ríkara mæli en áður fram innan flokkahópanna en í minna mæli á vettvangi landsdeilda.

Ég sit í efh.- og viðskn. Norðurlandaráðs, eins og þegar hefur verið nefnt af framsögumanni, formanni Íslandsdeildar. Þar eru undir mjög mörg málasvið sem mundu falla undir einar þrjár eða fjórar þingnefndir á Alþingi Íslendinga ef það er borið saman, þ.e. efh.- og viðskn., iðnn., félmn, og jafnvel fleiri nefndir, allshn. t.d. Efnahags- og viðskiptanefnd Norðurlandaráðs fjallar um efnahagsmál og starfsskilyrði atvinnulífsins, um innri markað á Norðurlöndunum, um frjálsa fólksflutninga án landamærahindrana, um viðskipti almennt, um byggðastefnu, vinnumarkaðsmál, vinnuvernd, innra skipulag, samgöngur, upplýsingatækni o.fl. þar fram eftir götunum. Starfssvið efnahags- og viðskiptanefndar er því mjög vítt og nefndin á samstarf við nokkra af ráðherrum ráðherraráðsins.

Vinnumarkaðsmálin og samstarf við Eystrasaltsríkin hafa verið fyrirferðarmikil á vettvangi efnahags- og viðskiptanefndar undanfarin ár og sérstakur starfshópur hefur unnið að því máli og skilað tillögum. Fram undan er, eins og ég hef áður nefnt í öðru samhengi, þ.e. þegar á þingi var til umræðu frv. um stækkun Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins, fram undan er stór vinnumarkaðsráðstefna sameiginleg á vegum Norðurlandaráðs, Norræna ráðherraráðsins og aðila vinnumarkaðarins með haustinu. Þar er m.a. ætlunin að fara yfir öll þau flóknu álitamál sem uppi eru í tengslum við aðild nýju Evrópusambandsríkjanna að sameiginlegum innri markaði og vinnumarkaði Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins.

Ýmis fleiri áhugaverð mál hafa verið á dagskrá eða eru til umfjöllunar í efh.- og viðskn. Norðurlandaráðs. Mætti nefna norræna sáttmálann um smáfyrirtæki, frumkvöðla og sjálfstæða uppfinningamenn. Það hefur mikið verið unnið að málefnum sem tengjast hugbúnaðarkerfum, opnum stöðlum og opnum hugbúnaðarkerfum, og ályktanir gerðar í framhaldi af nefndarstarfi um það efni, þar sem Norðurlöndin eru á margan hátt í fararbroddi. Hefur sú vinna vakið nokkra athygli, m.a. risanna í tölvuiðnaðinum, og ekki á hverjum degi sem stórfyrirtæki á borð við Microsoft og IBM fylgist grannt með starfi starfshópa á vegum Norðurlandaráðs, en það var tilfellið í þessu tilviki og væntanlega vegna þess að handan við hornið eru gríðarlega miklir viðskiptahagsmunir þar sem eru spurningarnar um það hvers konar hugbúnaðarkerfi og hvaða viðmiðanir, hvaða staðla löndin velja sér í þeim efnum. Ef norrænu ríkin riðu þar á vaðið og tækju upp formlegan stuðning við opna staðla gæti það reynst lítil þúfa sem veltir stóru hlassi ef það breiddist út og hefði áhrif almennt í tölvuheiminum.

Efh.- og viðskn. hefur erft mörg af þeim verkefnum sem unnið var að á vegum fyrri Evrópunefndar í Norðurlandaráði. Þar á meðal var þar unnið talsvert að breiðbandsmálum og upplýsingasamfélaginu og skilað gagnmerkum tillögum sem Norðurlandaráð hefur að mestu leyti gert að sínum í þeim efnum, sem m.a. lúta að skyldum opinberra aðila til þess að tryggja jafnræði og jafnan aðgang allra að hinu mikilvæga upplýsingasamfélagi. Er þar á ferðinni að ýmsu leyti róttæk tillögugerð sem Íslendingar gætu haft gott af að kynna sér, m.a. í tengslum við breytingar sem hér eru að verða eða hafa orðið í fjarskiptamálum.

Ég vil einnig nefna að undir efh.- og viðskn. falla byggðamál og að þeim hefur talsvert verið unnið. Sérstakur starfshópur skilaði tillögum um samræmdar norrænar aðgerðir í byggðamálum þar sem m.a. var lagt til að Norðurlöndin beittu sér sameiginlega á vettvangi Evrópusambandsins til að reyna að skapa skilning á því að við okkar aðstæður á hánorrænum breiddargráðum gæti verið þörf fyrir öðruvísi mælikvarða og öðruvísi viðmiðanir hvað varðar heimild til að beita sértækum aðgerðum en Evrópusambandið sjálft byggir á, sem fyrst og fremst lúta að því að skilgreina svæði út frá tekjum eða tekjustigi. En hér koma aðrir hlutir til sögunnar, á hánorrænum breiddargráðum getur verið við annars konar erfiðleika að etja en þá að tekjur séu lágar. Þar koma til miklar víðáttur og erfið veðrátta og annað í þeim dúr sem getur kallað á sértækar aðgerðir.

Lengi vel leit út fyrir að um þetta efni gæti orðið ágæt samstaða meðal Norðurlandanna og var ekki annað að heyra á norrænum þingmönnum en svo væri. Hins vegar skarst danska ríkisstjórnin úr leik þegar á átti að herða og lagðist gegn því að Norðurlöndin mótuðu sameiginlega áherslu af þessu tagi eða berðust fyrir henni, t.d. í samskiptum við Evrópusambandið, og því hefur minna orðið úr því en til stóð. Eftir sem áður er að mínu mati enginn vafi á því að það er mikið í það að sækja að Norðurlöndin efli samstarf sitt á þessum sviðum. Það er að mörgu leyti við hliðstæð vandamál að etja hvað varðar búferlaflutninga frá norðri til suðurs í öllum þessum löndum og úr strjálbýli í þéttbýli, og þó að vandamálin séu kannski af mismunandi stærðargráðu --- og einna alvarlegust hafa þau verið á Íslandi --- geta menn ýmislegt af því lært að bera saman bækur sínar. Síðast en ekki síst er að mínu mati ekki nokkur vafi á því að norræna byggðarannsóknastofnunin, Nordregio, er að vinna mjög gagnlegt starf, tekur saman og heldur utan um upplýsingar fyrir öll Norðurlöndin að þessu leyti, og reyndar njótum við góðs af því á ýmsan hátt, Íslendingar, að sækja í þann gagnabanka.

Ég vil taka eitt mál, frú forseti, sérstaklega sem varðar hið norræna samstarf í pólitísku samhengi, og það er ósk Færeyinga um sjálfstæða aðild að Norðurlandaráði. Ég hef talað fyrir því á norrænum vettvangi alveg eindregið og hér heima fyrir að við Íslendingar styðjum þessa ósk. Ég tel að okkur beri rík skylda til þess. Sjálfum finnst mér ósk Færeyinga við núverandi aðstæður í stjórnmálum þar fullkomlega eðlileg og um hana er aldrei þessu vant þverpólitísk samstaða í Færeyjum. Ég veit ekki annað en að ný ríkisstjórn hyggist halda óskinni til streitu. Þar með finnst mér að við hljótum að gera meira en bara að vísa því máli til Dana og að selja þeim sjálfdæmi í því hvernig Norðurlöndin bregðast við óskinni.

Að sjálfsögðu þurfa Danir og Færeyingar að leysa úr innri samskiptamálum sínum sjálfir og við getum ekki aðhafst mikið í þeim efnum nema eftir því verði óskað af þeirra hálfu að við séum þar einhvers konar milligöngumenn. En þegar málið snýst um sjálfsákvörðunarrétt færeysku þjóðarinnar í þeim skilningi að forustumenn þeirra hafa nú sameiginlega óskað eftir því að Færeyjar fái sjálfstæða aðild að Norðurlandaráði er það ekki mál sem menn geta vísað frá sér með því einu að benda á Dani. Með fullri virðingu fyrir þeim svörum sem hæstv. forsrh., Davíð Oddsson, gaf mér í umræðum um málið á síðasta Norðurlandaráðsþingi tel ég að við getum ekki látið þar við sitja. Þó vissulega skilji maður þá stöðu sem forsrh. telur sig vera í gagnvart starfsbróður sínum, hinum danska, breytir það ekki hinu að við Íslendingar getum haft okkar sjálfstæðu afstöðu í málinu. Það er ekki þar með sagt að málið sé strand þó stjórnarskráin danska torveldi það að Færeyjar við núverandi aðstæður fái sjálfstæða aðild að Norðurlandaráði, í ljósi þess hvernig Helsinki-sáttmálinn er úr garði gerður. Það er breytanlegur hlutur, hann er einfaldlega fyrirbæri sem hægt er að taka upp og breyta og er einfaldara í vöfum en að breyta dönsku stjórnarskránni, eins og kannski einhverjir þekkja að er hægara sagt en gert vegna þess hversu stóraukinn hluta atkvæða þarf til að ná slíkum breytingum fram til viðbótar mikilli kosningaþátttöku. Það er mál sem mér finnst að eigi að taka til skoðunar, að Helsinki-sáttmálinn verði endurskoðaður með það í huga að sjálfstjórnarsvæði eða þjóð sem er á leið til fulls sjálfstæðis, eins og Færeyingar tvímælalaust eru, geti þegar einhverju vissu stigi sjálfstæðis er náð, öðlast sjálfstæða aðild að Norðurlandaráði. Krafan sé ekki sú að þetta séu algerlega sjálfstæð ríki, heldur geti sjálfstjórnarsvæði sem þess óska og hafa náð tilteknu sjálfstæði öðlast fullgilda aðild að þessu leyti þó skoða verði sérstaklega hvernig færi svo aftur með aðild þeirra að ráðherraráðinu. Þetta vildi ég nefna hér, herra forseti, og er mér nokkurt áhugamál að okkur Íslendingum renni blóðið til skyldunnar í þessum efnum.