Norrænt samstarf 2003

Þriðjudaginn 16. mars 2004, kl. 16:01:49 (5364)

2004-03-16 16:01:49# 130. lþ. 84.10 fundur 688. mál: #A norrænt samstarf 2003# skýrsl, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 130. lþ.

[16:01]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Frú forseti. Í sambandi við fréttaflutninginn og kynningu á hinu norræna samstarfi held ég hreinlega að við verðum að taka það til skoðunar að setja einhverjar sérstakar aðgerðir í gang í þeim efnum. Mögulega er einfaldlega nauðsynlegt að gera fjölmiðlum t.d. betur kleift að fylgjast með og sækja atburði af því tagi sem við teljum að ástæða sé til að fái umfjöllun hér heima og almenningur viti af. Við erum hér með fremur litla og kannski fjárhagslega veikburða fjölmiðla á norrænan mælikvarða séð. Við erum hvorki með jafnöfluga ríkisfjölmiðla né einkafjölmiðla eða blöð eins og gerist annars staðar á Norðurlöndunum og við vitum vel að í vaxandi mæli hefur gætt þeirrar tilhneigingar að menn spari sér að senda fréttamenn, jafnvel á Norðurlandaráðsþing, hvað þá á aðra atburði. Mögulega verður þá að horfast í augu við það að einfaldlega fá slíkir atburðir ekki þá umfjöllun hér heima sem byggð er á viðveru fréttamanna og þekkingu á atburðum á staðnum nema þeim sé gert það kleift eða þeir með einhverjum hætti studdir til þess að rækja slíkt. Það er nokkuð sem við hljótum að þurfa að taka til skoðunar.

Varðandi sjálfstæða aðild Færeyinga, sem ég hef hér gert að umtalsefni og ekki í fyrsta skipti, mun ég halda áfram að nudda með það mál. Ég get lofað hv. þingmanni því, það er engin uppgjöf í mér í þeim efnum. Og mér fyndist fara vel á því að í formennskutíð okkar í Norðurlandaráði á næsta ári tækjum við Íslendingar það til alvarlegrar skoðunar hvort ekki eru færar leiðir, án þess að um það þurfi að verða ágreiningur, til þess að setja í gang skoðun, t.d. lögfræðilega og þjóðréttarlega skoðun á möguleikum þess að breyta Helsinki-sáttmálanum þannig að sjálfstjórnarsvæði með mjög hátt stig sjálfstæðis, eins og Færeyjar eru nú að ná með yfirtöku fleiri og fleiri málaflokka frá Dönum, geti átt sjálfstæða og fullgilda aðild að ráðinu.