Norrænt samstarf 2003

Þriðjudaginn 16. mars 2004, kl. 16:06:19 (5366)

2004-03-16 16:06:19# 130. lþ. 84.10 fundur 688. mál: #A norrænt samstarf 2003# skýrsl, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 130. lþ.

[16:06]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Frú forseti. Það mun vera hárrétt hjá hv. þingmanni að flokkahópur miðjumanna sé stærstur í Norðurlandaráði og veldur þar nokkru að þar er áfangastaður og safnstöð fyrir ýmsa sem ekki vita alveg í hvorn fótinn þeir eiga að stíga. Ýmsum flokkum sem róla einhvers staðar í nágrenni við miðjuna finnst þægilegt að finna sér þar samastað, og jafnvel einstökum þingmönnum sem aðild eiga að Norðurlandaráði, þannig að segja má að það sé næsti bær við að vera utan flokka eða hlutlaus í þeim efnum hjá mörgum. Að sjálfsögðu eru klassískir miðjuflokkar uppistaðan í þeim hópi en þeim bætist liðsauki úr ýmsum áttum sem gerir það að verkum að sá hópur er býsna stór.

Auðvitað deili ég áhyggjum með hv. þingmanni yfir því að kannski sé ekki sami áhugi á norrænu samstarfi og að sækja sér menntun eða lífsreynslu til Norðurlanda og áður hefur verið meðal æskufólks á Íslandi. Þá má samt líka spyrja hvort við stöndum okkur nógu vel að ýmsu leyti í þeim efnum. Ég nefni t.d. til sögunnar þá smán að við Íslendingar skulum ekki hafa neina styrki til lýðháskólanáms eða yfirleitt að vera í hinum mestu vandræðum með að taka þátt í hinu merka lýðskólasamstarfi á Norðurlöndunum, annars vegar vegna þess að við eigum ekki nema í mjög takmörkuðum mæli skóla sem hægt er að kalla eiginlega lýðskóla eða lýðháskóla, og hins vegar vegna þess að ungmenni héðan eiga ekki kost á styrkjum til slíks náms með sama hætti og nágrannalöndin. Á því sviði höfðu einmitt norrænu félögin mikilvægu hlutverki að gegna og gera út af fyrir sig enn en þar er við verulega erfiðleika að etja. Við erum hálfpartinn upp á náð og miskunn frænda okkar annars staðar á Norðurlöndunum komin. Þetta þekki ég vel af eigin raun frá nýliðnum dögum þar sem ég reyndi að aðstoða ungt fólk við að komast í lýðháskólapláss. Það var verið að reyna að ráða fram úr því hvar væri vænlegast að bera niður, m.a. til þess að verða aðnjótandi styrkja sem hinar Norðurlandaþjóðirnar bjóða upp á en ekki við.