Norrænt samstarf 2003

Þriðjudaginn 16. mars 2004, kl. 16:26:18 (5372)

2004-03-16 16:26:18# 130. lþ. 84.10 fundur 688. mál: #A norrænt samstarf 2003# skýrsl, MÞH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 130. lþ.

[16:26]

Magnús Þór Hafsteinsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekki sammála hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni að Norðurlandaráð sé hinn fullkomni vettvangur til að fara að rífast um hvalveiðar. Að því er ég best veit er bara ein þjóð meðal Norðurlanda sem er alvarlega á móti hvalveiðum og það eru Svíar. Mér finnst stjórnvöld leggja áhersluna vitlaust á þennan málaflokk. Ég er ekki að draga úr mikilvægi þessa málaflokks, alls ekki, en ég held að það væri miklu nær fyrir okkur að reyna að vinna þessum málstað framgang í Evrópu og Norður-Ameríku og síðan í Japan, en ekki að vera að eyða okkar dýrmæta tíma og dýrmætu kröftum í það að tala um hval innan Norðurlandaráðs og reyna að finna réttlætingu og rök fyrir því að veiða hval á þeim vettvangi.

Það væri miklu nær fyrir okkur Íslendinga ef við viljum koma á framfæri mikilvægum málum hvað varðar umhverfis- og náttúruauðlindanefnd Norðurlandaráðs, að reyna að beina henni t.d. að umhverfismálum, umhverfisvöktun, bæði á landi og sjó og í vötnum. Það er mjög mikilvægur málaflokkur sem sem mundi síðan beinast að matvælaöryggi. Og síðan að þeim mikilvæga málaflokki sem er náttúrlega hafrannsóknir og fiskveiðistjórnarmál. Þau eru einfaldlega það mikilvæg og tengjast síðan aftur inn á aðra mikilvæga málaflokka eins og t.d. byggðamálin, sem margoft hefur verið bent á úr þessum ræðustól, og ég held að við ættum miklu frekar að reyna að fá Norðurlöndin í lið með okkur í þessum hlutum. Þarna getum við gert mjög góða hluti, gríðarlega góða hluti og þarna er mikið verk óunnið. Við eigum t.d. tvö mjög góð rannsóknaskip, hafrannsóknaskip sem liggja bundin við bryggju stóran hluta úr árinu vegna þess að við þykjumst ekki eiga peninga til að reka þau. Það væri kannski hægt að finna þeim verkefni annars staðar, t.d. á vettvangi norrænnar samvinnu, í staðinn fyrir að þurfa að horfa upp á þá skömm að þessi miklu og dýru skip með öllum sínum mannskap skuli liggja hér geld við bryggju, bundin nánast allt árið.