Norrænt samstarf 2003

Þriðjudaginn 16. mars 2004, kl. 16:35:16 (5375)

2004-03-16 16:35:16# 130. lþ. 84.10 fundur 688. mál: #A norrænt samstarf 2003# skýrsl, JBjart (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 130. lþ.

[16:35]

Jónína Bjartmarz (andsvar):

Frú forseti. Ég vil í örfáum orðum taka undir með hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni varðandi það sem hann sagði um áhersluna á Vestur-Norðurlöndin. Þetta hefur og er orðið eitt af áherslumálunum og eins og ég veit að hv. þm. veit og þekkir, hefur áherslan í Norðurlandasamstarfinu á undanförnum tíu árum meira og minna verið í austur og á samstarf og stuðning við Eystrasaltsríkin sem eru núna að ganga inn í ESB.

Varðandi áhersluna á Vestur-Norðurlöndin, er grunnurinn að þeirri vinnu sem núna fer fram úttekt og skýrsla sem norræna ráðherranefndin lét gera um hverju skyldi forgangsraða þar og hvaða leiðir og áherslur skyldi hafa í því samstarfi. Ég veit ekki hvort hv. þm. er kunnugt um að það var hv. fyrrv. þm., Ísólfur Gylfi Pálmason, sem upphaflega átti hugmyndina í flokkahópi miðjumanna innan Norðurlandaráðsins. Þaðan kom vinnan og tilmæli til ráðherranefndarinnar í gegnum Norðurlandaráðsþing um að þetta skyldi sett í öndvegi og í framhaldi af því var skýrslan unnin.

Hins vegar sýnist mér nokkuð einsýnt að þennan Vestur-Norðurlandavagn þurfa Íslendingar og fulltrúar í Íslandsdeild Norðurlandaráðsins að vera nokkuð öflugir að draga vegna þess að eðlilega eru það kannski þau lönd, við, Vestur-Noregur, Færeyjar og Grænland sem hafa meiri áhuga á því en mörg önnur. Ég vil því láta þess getið að fulltrúarnir í Íslandsdeild Norðurlandaráðsins hafa upp til hópa allir verið mjög öflugir í því að tala fyrir auknu svæðasamstarfi á Vestur-Norðurlöndunum og áherslunum þar og þar með fyrir sjálfbærri nýtingu hafsins og auðlinda og öðrum málum sem eru sett í forgang í þeirri vinnu.