Norrænt samstarf 2003

Þriðjudaginn 16. mars 2004, kl. 16:40:38 (5377)

2004-03-16 16:40:38# 130. lþ. 84.10 fundur 688. mál: #A norrænt samstarf 2003# skýrsl, JBjart (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 130. lþ.

[16:40]

Jónína Bjartmarz (andsvar):

Frú forseti. Það er heldur stuttur tími sem ég hef til að veita andsvar við hvorutveggja sem kom fram hjá hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni.

Varðandi afnám landamærahindrana hafa allir fulltrúar í Íslandsdeild Norðurlandaráðs komið inn á það mál í dag. Það kom líka fram í framsöguræðu minni að Schlüter, fyrrv. forsrh. Dana, hefur verið að vinna að þessu og byggir á tiltekinni skýrslu þar sem var kortlagt hverjar landamærahindranirnar eru. Hann gerði síðan grein fyrir vinnu sinni á síðasta Norðurlandaráðsþingi. Áfram er unnið að þessu.

Eins og kom líka fram í umræðum í dag eru Halló Norðurlönd skrifstofurnar á öllum Norðurlöndum, sem eru reknar af norrænu félögunum á hverjum stað með styrk, hér á landi frá Alþingi, í rekstur sinn bæði að veita leiðbeiningar til fólks sem er að flytjast á milli og líka að skrá upplýsingar um þær hindranir sem enn eru. Síðan þurfa náttúrlega þær upplýsingar að fara í ákveðinn farveg hvort sem það er innan embættismannakerfisins eða til löggjafans svo hægt sé að bregðast við þessu.

Það hefur líka komið fram að staðið hefur verið fyrir námskeiðum fyrir embættismenn til að upplýsa þá betur um hvar hindranirnar eru og hvernig eigi að bregðast við þeim. Ein af niðurstöðum rannsóknarinnar á sínum tíma var einmitt að það væri ákveðin vankunnátta hjá embættismönnum til að geta leiðbeint fólki.

Hitt sem ég vildi fá að bregðast við, frú forseti, var það sem hv. þm. bendir á og heyrir undir velferðarnefndina og kjarna tillögu hennar til norrænu ráðherranefndarinnar um vinnu með Eystrasaltsríkjunum að strangari og skilvirkari stefnu í Evrópu í þeim málaflokki og að tryggja meðferðarúrræði fyrir vímuefnaneytendur, vinna að því að minnka meðalneyslu áfengis með verðlagsstefnu, sem hv. þm. lagði sérstaka áherslu á. Ég tek undir með honum að sú þróun sem hefur verið á sumum Norðurlöndum með verðlagningu á áfengi er í rauninni í bága við þá stefnu.