VES-þingið 2003

Þriðjudaginn 16. mars 2004, kl. 17:09:19 (5383)

2004-03-16 17:09:19# 130. lþ. 84.13 fundur 601. mál: #A VES-þingið 2003# skýrsl, BjarnB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 130. lþ.

[17:09]

Bjarni Benediktsson:

Virðulegi forseti. Á þskj. 908 liggur fyrir skýrsla frá Íslandsdeild VES-þingsins fyrir árið 2003. Skýrslan er greinargóð lýsing á starfsemi VES-þingsins og Íslandsdeildar og því óþarfi að rekja allt sem í henni er en ég vil þó í máli mínu víkja að helstu þáttum hennar.

Á VES-þinginu sem fyrst hóf þingstörf 1954 koma saman þjóðkjörnir þingmenn frá aðildarríkjum sambandsins en þau eru nú 10 talsins, þ.e. öll aðildarríki ESB og NATO. Aukaaðild að þinginu eiga þau evrópsku aðildarríki NATO sem ekki eiga aðild að ESB, þ.e. Ísland, Noregur, Pólland, Tékkland, Tyrkland og Ungverjaland. Áheyrnaraðild að VES-þinginu eiga þau ESB-ríki sem fylgt hafa hlutleysisstefnu í utanríkismálum, auk Danmerkur. Loks hafa sjö ríki Mið- og Austur-Evrópu gert samstarfssamninga við VES.

Því næst að helstu málefnum ársins. Á árinu 2003 varð framhald á umræðu um framtíðarhorfur VES-þingsins og um stofnanatengsl Vestur-Evrópusambandsins við Evrópusambandið og Atlantshafsbandalagið en síðustu ár hafa miklar breytingar átt sér stað á sviði öryggis- og varnarmála í Evrópu. Forsaga þess máls er vel kunn og er rakin í skýrslunni.

Vil ég því víkja að þeim helstu þáttum sem marka framtíðarþróun öryggis- og varnarmála í álfunni.

Samkvæmt ákvörðunum leiðtoga aðildarríkja ESB hefur nauðsynlegum stofnunum þegar verið komið á fót innan ,,annarrar stoðar`` ESB og auk þess hefur hernaðarlegum markmiðum sambandsins þegar verið ýtt úr vör en stefnt er að því að það hafi á að skipa 50--60 þús. manna evrópsku herliði sem brugðist geti skjótt við er hættuástand skapast. Ákvarðanir nokkurra leiðtogafunda ESB og yfirlýsing leiðtogafundar NATO í Washington liggja til grundvallar beinu sambandi milli NATO og ESB í þessum málum og hefur þróunin í átt að sjálfstæðum hernaðarmætti ESB í kjölfarið gert það að verkum að hlutverk VES í öryggis- og varnarmálum álfunnar er nokkru minna en áður í ljósi þess að stofnanir öryggis- og varnarmála álfunnar hafa færst á ábyrgð ESB. Jafnframt var í yfirlýsingu leiðtogafundar NATO kveðið á um mikilvægi þátttöku evrópsku NATO-ríkjanna utan ESB í öryggis- og varnarsamstarfi á vegum ESB og að NATO-ríkin utan ESB fengju aðgang að búnaði NATO.

Á árinu náðist loks samkomulag í sjö liðum um hvernig þessum málum verði háttað í framtíðinni og er það mikilsverður áfangi út af fyrir sig, sérstaklega í ljósi eindreginnar andstöðu Tyrkja þar til fyrir skömmu. Á hitt ber þó að líta að lítil reynsla er komin á samkomulag þetta og þykir ljóst að á næstu missirum verði prófsteinninn yfirfærsla friðargæsluverkefna Atlantshafsbandalagsins í Bosníu og Hersegóvínu til Evrópusambandsins.

Virðulegi forseti. Því miður standa öryggis- og varnarmál íbúum Evrópu-Atlantshafssvæðisins mjög nærri um þessar mundir. Breytt heimsmynd og baráttan gegn hryðjuverkum, útbreiðslu gereyðingarvopna og öfgahópum hefur verið ljóslifandi fyrir augum okkar á undanförnum missirum og jafnvel sl. vikum. Lýðræði, friði og stöðugleika er ekki unnt að ná nema með einurð, hernaðargetu og skilvirku samstarfi. Öryggis- og varnarmál Evrópu eru í örri þróun, eins og fyrr var sagt, og að sumu leyti má segja að metnaður ESB hafi farið fram úr eiginlegri getu. Ástæða er til að fagna því hversu mikill vilji er innan ESB-ríkja að axla meiri ábyrgð á öryggi álfunnar en hingað til en að sama skapi verður að undirstrika mikilvægi þess að þróun öryggis- og varnargetu ESB grafi ekki undan Atlantshafsstrengnum sem fært hefur íbúum álfunnar öryggi í yfir hálfa öld.

Í þessu samhengi hefur VES-þingið verið mikilvægur þátttakandi í umræðunni um hvernig staðið verði að evrópsku þingi er hafi öryggis- og varnarmál til umfjöllunar. VES-þingið hefur lagt til að komið verði á fót öryggis- og varnarmálaþingi Evrópu þar sem þjóðkjörnir þingmenn hefðu eftirlit með starfsemi stofnana ESB á sviði öryggis- og varnarmála. Þá hefur verið lagt til að nýja þingið yrði grundvallað á ESB-sáttmálanum og að þingmenn þjóðþinga ESB-ríkjanna 15 tækju þar sæti, auk þjóðkjörinna þingmanna þeirra evrópsku aðildarríkja NATO sem ekki eru aðilar að ESB.

Þrátt fyrir umfangsmiklar stofnana- og skipulagsbreytingar í Evrópu á undanförnum árum er VES-þingið enn sem komið er eina evrópska þingmannasamkundan sem gefur þjóðkjörnum þingmönnum færi á að fylgjast með og ræða sameiginleg öryggis- og varnarmál álfunnar.

Á árinu lagði Framtíðarráðstefna Evrópusambandsins fram drög að stjórnarskrá ESB og höfðu vonir staðið til að í drögunum kæmu fram svör við því hvernig haga bæri þátttöku þjóðkjörinna þingmanna í störfum ESB. Nokkur vonbrigði hafa verið hvað þetta atriði varðar því að í þeim drögum sem liggja fyrir leiðtogum aðildarríkja ESB er staða þjóðþinganna afar veik í ljósi þess að þar er ekki á þau minnst, heldur aðeins óljóst í viðauka. Umræðan um hlutverk þjóðþinganna í þessum málaflokki hefur því haldið áfram á árinu. Íslandsdeildin hefur í málflutningi sínum lagt áherslu á mikilvægi þess að núverandi aukaaðildarríki VES geti tekið þátt í þróun öryggis- og varnarmálasamstarfs álfunnar, sem og framkvæmd þeirrar stefnu sem á endanum verður mótuð. Þá hefur Íslandsdeildin lagt áherslu á mikilvægi lýðræðislegs eftirlits þjóðkjörinnar þingmannasamkundu eins og VES-þingsins.

[17:15]

Þessi sjónarmið hafa einnig borið hátt í máli forseta þingsins og annarra sem talað hafa máli þess á alþjóðavettvangi. Óhætt er að segja að um þau ríki sátt innan vébanda VES-þingsins.

Fram að alþingiskosningum 10. maí voru aðalmenn Íslandsdeildarinnar Kristján Pálsson, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Katrín Fjeldsted, varaformaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Lúðvík Bergvinsson, þingflokki Samfylkingarinnar. Varamenn voru Einar Oddur Kristjánsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Sigríður Ingvarsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingflokki Samfylkingarinnar. Ný Íslandsdeild var skipuð í upphafi 129. þings. Aðalmenn voru Bjarni Benediktsson, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Guðjón Hjörleifsson, varaformaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Bryndís Hlöðversdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar. Varamenn voru Drífa Hjartardóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Guðmundur Hallvarðsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingflokki Samfylkingarinnar. Andri Lúthersson var ritari Íslandsdeildar VES-þingsins.

Ég vil þá víkja örfáum orðum að umræðunni á VES-þinginu á árinu.

Dagana 2.--4. júní fór fyrri hluti 49. fundar VES-þingsins fram í Strassborg. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildarinnar Bjarni Benediktsson formaður, Drífa Hjartardóttir og Anna Kristín Gunnarsdóttir auk ritara. Evrópusamstarf í öryggis- og varnarmálum á vettvangi Evrópusambandsins annars vegar og Atlantshafstengslin hins vegar voru öðrum málum fyrirferðarmeiri á fundinum að þessu sinni. Þess má geta að í fyrsta skipti í sögu þingsins var haldinn sameiginlegur fundur með Evrópuþinginu og var þá síðarnefnda umræðuefnið á dagskrá.

Hollendingurinn Jan Dirk Blaauw, forseti VES-þingsins, hélt í upphafi fundarins ræðu þar sem hann gagnrýndi mjög Framtíðarráðstefnu ESB. Hann sagði að hvorki hefði tekist með tillögum ráðstefnunnar að einfalda stofnanakerfi ESB né auka gegnsæi og lýðræði innan sambandsins. Kæruleysisleg vinnubrögð einkenndu starf ráðstefnunnar á sviði varnar- og öryggismála, tillögur um samstarfsform á þessu viðkvæma sviði væru óþarflega flóknar, ekkert tillit væri tekið til samstarfsríkja utan ESB sem væru aðilar að NATO og nýjustu tillögur varðandi lýðræðislegt aðhald í þessum málaflokki gerðu ekki ráð fyrir samstarfsvettvangi þjóðþinga. Hann sagði gjörsamlega óásættanlegt að einungis COSAC, samstarfsnefnd Evrópuþingsins og þjóðþinga ESB, bæri ábyrgð á lýðræðislegu aðhaldi í varnar- og öryggismálum. Þá gerði Blaauw getuleysi ESB á hernaðarsviðinu að umtalsefni og sagði ótraustvekjandi þegar varnarmálaráðherrar ESB væru með yfirlýsingar sem stönguðust á við raunveruleikann, t.d. þegar þeir segðu ESB tilbúið að framkvæma Petersberg-verkefni í stórum stíl.

Aðrir sérstakir ræðumenn á þinginu voru Peter Schieder, forseti Evrópuráðsþingsins, Vecdi Gönül, varnarmálaráðherra Tyrklands, Antonio Martino, varnarmálaráðherra Ítalíu fyrir hönd verðandi formennskulands í ESB og VES, og Yannos Papantoniou, varnarmálaráðherra Grikklands fyrir hönd formennskulands í ESB og VES. Jafnframt fór fram sérstök umræða um evrópsk varnarmál og Atlantshafstengslin og flutti Chris Patten ávarp við það tækifæri, en hann fer með utanríkismál í framkvæmdastjórn ESB. Patten taldi að Evrópa og Bandaríkin næðu markmiðum sínum best með samvinnu. Hann sagði gildismat Evrópu og Bandaríkjanna í grundvallaratriðum það sama og efnahagslega væru Evrópa og Bandaríkin mjög háð hvort öðru, ekki síst á sviði fjárfestinga. Evrópa væri jafnoki Bandaríkjanna efnahagslega, en ekki hernaðarlega. Evrópumenn yrðu að vera reiðubúnir að beita hernaðarvaldi með sannfærandi hætti til að vera teknir alvarlega. Hann taldi að viðhorf Bandaríkjamanna hefðu ekki breyst í grundvallaratriðum eftir 11. september og hagsmunir þeirra og Evrópumanna færu enn saman, þó að vissulega væru ólík viðhorf til Ísraels og Miðausturlanda.

Dagana 1.--3. desember var seinni hluti 49. fundar VES-þingsins haldinn í París. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar Bjarni Benediktsson formaður, Guðjón Hjörleifsson varaformaður og Bryndís Hlöðversdóttir, auk ritara. Umræður um sameiginlega öryggis- og varnarstefnu ESB, áætlanir um Evrópuher og hugsanlegar höfuðstöðvar hans, auk samskipta Bandaríkjanna og Evrópu í kjölfar Íraksstríðsins voru öðrum málum fyrirferðarmeiri á desemberfundi VES-þingsins. Þá beindust umræður öðrum þræði að stjórnarskrárdrögum ESB og spurningunni um hvort og með hvaða hætti ESB muni finna öryggis- og varnarmálastefnunni, og þá sérstaklega sameiginlegum vörnum, stað í stjórnarskránni. Í stjórnarskrárdrögum Evrópusambandsins sem ríkjaráðstefna þess á enn eftir að taka afstöðu til, er ekki gert ráð fyrir neinu formlegu hlutverki VES-þingsins á sviði öryggis- og varnarmálastefnu ESB, líkt og þingið hefur lengi barist fyrir.

Á fundinum kom fram eindreginn stuðningur við þá afstöðu að hagsmunir aðildarríkja VES og þjóðþinga þeirra væru best tryggðir ef ráðherraráði ESB væri skylt að upplýsa og leita ráðgjafar hjá fjölþjóðlegum þingmannasamtökum sem væru skipuð fulltrúum þjóðþinga. Þetta hvílir á þeirri forsendu sem margsinnis hefur komið fram hjá VES-þinginu að fjölþjóðleg samvinna innan ESB á sviði öryggismála yrði að haldast í hendur við fjölþjóðlega samvinnu þjóðþinga. Árangurinn hafi ekki látið á sér standa innan þeirra stofnana þar sem sá háttur hefur verið hafður á, sbr. VES, ÖSE og NATO.

Desemberfundur VES-þingsins fór fram stuttu eftir ráðherrafund ESB í Napólí þar sem fram kom að ekki eru miklar vonir til þess að staða þjóðþinganna verði styrkari hvað fjölþjóðlegt samstarf varðar í lokaútgáfu stjórnarskrárdraganna. Í ávarpi fráfarandi forseta VES-þingsins, Lúxemborgarans Marcels Gleseners, kom fram að í þeim drögum sem nú liggja fyrir leiðtogunum væri staða þjóðþinganna afar veik í ljósi þess að þar er ekki á þau minnst, heldur aðeins óljóst í viðauka eins og ég hef áður komið að. Hvað samvinnu á sviði varnarmála varðaði og möguleika á að stjórnarskráin innihaldi ákvæði um sameiginlegar varnir, væri enn óljóst hvort sáttatillaga Frakka, Þjóðverja og Breta í þeim efnum, sem kvæði á um skipulegt samstarf, hlyti náð fyrir augum leiðtoga ríkjanna 25 sem veita þyrftu samhljóða samþykki sitt. Enn væri eftir að útfæra orðalagið nánar og enn væru margar spurningar sem brýnt væri að svara í þessum efnum, t.d. hvernig hugsanleg ákvæði í stjórnarskránni mundu vera frábrugðin gr. 5 í endurskoðaða Brussel-sáttmálanum, hvaða skilyrði ættu að gilda svo að ríki gætu veitt samþykki sitt við sameiginlegum varnarskuldbindingum, hverjir ættu að skuldbinda sig til að veita hernaðarlegt öryggi til handa þeim ríkjum sem stæðu utan Atlantshafsbandalagsins og hvert væri hlutverk þeirra NATO-ríkja sem stæðu utan ESB í slíku samstarfi. Góður rómur var gerður að erindi forsetans. Áhugavert var að heyra í máli tignargesta sem boðið var til fundarins afar mismunandi skoðanir á því hvernig haga bæri öryggismálum og vörnum í stjórnarskrá ESB.

Jean-Claude Juncker, forsætisráðherra Lúxemborgar, hélt ræðu þar sem hann lagði áherslu á að tillögur Frakka, Þjóðverja og Breta um ákvæði um sameiginlegar varnir í stjórnarskrárdrögunum ættu að vera hluti af grunnstoð stjórnarskrárinnar og að þær yrði að útfæra á þrengri hátt. Sagðist hann vera þeirrar skoðunar að ESB-ríkin yrðu í framtíðinni að búa við sameiginlegan varnarviðbúnað. Þegar væru fyrir hendi ákvæði um sameiginlega aðstoð og sameiginlegar varnir ættu því heima í stjórnarskránni.

Í ræðu Bachs lávarðar, aðstoðarvarnarmálaráðherra Bretlands, kom hins vegar fram að bresk stjórnvöld væru andvíg mörgum þeim tillögum sem komið hefðu fram í tengslum við ríkjaráðstefnuna. Sagði hann að Bretar væru andvígir ákvæði um sameiginlegar varnir ef það væri andstætt öryggisskuldbindingum þeim sem fælust í Norður-Atlantshafssáttmálanum. Þá mættu slík ákvæði og samstarf sem á þeim hvíldi ekki heldur grafa undan þeim forsendum öryggis- og varnarmálastefnu ESB sem fram hefðu komið og samþykktar á leiðtogafundinum í Nissa árið 2000. Sagði hann að aðeins skipulegt samstarf sem miðaði að því að bæta skilvirkni og hraða væri ásættanlegt. Á hinn bóginn sagði Bach að fullur vilji væri til þess innan bresku ríkisstjórnarinnar að breikka og útfæra svið Petersberg-verkefnanna svonefndu, friðargæslu og mannúðarstarf, en að á móti kæmi að viðvarandi fjársvelti herja ESB-ríkjanna kæmi í veg fyrir nauðsynlega hernaðarlega getu. Sagðist hann jafnframt fagna tillögum Ítala og Frakka um ný höfuðmarkmið ESB sem kvæðu á um að ESB, eitt og sér ef þörf krefði, gæti tekist á hendur hættuástandsstjórn 15 dögum eftir að slíkt ástand kæmist á.

Þá hlýddu fundarmenn á mál tveggja ráðherra frá hlutlausum ríkjum í ESB. Erkki Tuomioja, utanríkisráðherra Finnlands, hélt ræðu á fundinum þar sem fram kom að ákvæði það um sameiginlegar varnir sem verið væri að semja um ætti að styrkja pólitíska einingu innan ESB en ekki skapa nýtt varnarbandalag. Sagði hann að ef Finnar þyrftu á öryggisskuldbindingum að halda mundu þeir að sjálfsögðu snúa sér til Atlantshafsbandalagsins. Dick Roche, Evrópumálaráðherra írsku ríkisstjórnarinnar, ræddi á sömu nótum og Tuomioja og sagði í ræðu sinni að hvorki væri þörf á sameiginlegum varnarsáttmála ESB né tveggja hraða kerfi er lyti að öryggis- og varnarsamstarfi. Sagði hann ónauðsynlegt að hafa í stjórnarskránni ákvæði um sameiginlegar varnir sem færi á svig við stjórnarskrár einstakra aðildarríkja. Rík þörf væri á því að finna lausn sem útilokaði enga þjóð.

Hér hefur verið drepið á því helsta sem fram kom á fundum VES-þingsins á árinu. Fyllri upplýsingar koma fram í skýrslu þeirri sem hér hefur verið lögð fram.