Tímasetning ráðstefna á vegum ráðuneyta

Miðvikudaginn 17. mars 2004, kl. 13:36:33 (5393)

2004-03-17 13:36:33# 130. lþ. 85.91 fundur 411#B tímasetning ráðstefna á vegum ráðuneyta# (aths. um störf þingsins), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 130. lþ.

[13:36]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Mér finnst þetta miður. Ég veit að hv. þm. sem síðast talaði er mikið í mun að mæta vel til ráðstefna. En það er nú þannig með ráðstefnur af hvers konar tagi að þær eru meira og meira farnar að fara yfir á virka daga því það er líka kvartað yfir því að taka helgarnar frá fólki í stórum stíl. Yfir því er líka kvartað.

Þannig vill til að fyrirspurnadagur er í dag og samkvæmt þingsköpum eru menn ekki bundnir við setu í þingsalnum. Það er sérstök undanþága frá því í þingsköpunum þannig að til þess er horft einnig í þessu sambandi. Eingöngu þeir sem bundnir eru við fyrirspurnir þurfa hér að vera. Ég hef ætlað mér að fara á þessa ráðstefnu þegar ég hef lokið mínu verki hér og fylgjast þar nokkuð með. En það dregst nú eitthvað vegna þess að menn eru að ræða hér um ráðstefnur. Látum það nú vera. Það er reynt að passa sig að öllu leyti hvað þetta varðar. Ég tel að það hafi verið gert í þessu tilviki og ég tel, þó að sjálfsagt sé að hlusta á ábendingar, að töluverður vandi sé að setja ráðstefnur eingöngu á kvöldin sem eiga eins og þessi að standa í allmarga klukkutíma.