Tímasetning ráðstefna á vegum ráðuneyta

Miðvikudaginn 17. mars 2004, kl. 13:41:14 (5397)

2004-03-17 13:41:14# 130. lþ. 85.91 fundur 411#B tímasetning ráðstefna á vegum ráðuneyta# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 130. lþ.

[13:41]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Málsvörn hæstv. forsrh. í þessu tilviki er nú ekki beysin. Ég held að betur hefði farið á því að hæstv. forsrh. hefði, að vísu þá, brugðið vana sínum og einfaldlega beðist velvirðingar á því að þessi árekstur skyldi hafa orðið. Menn hefðu haft þá heldur tilhneigingu til að fyrirgefa það kannski sem aðgæsluleysi eða klaufaskap að láta þetta takast svona til. En reyna að færa fyrir því rök að þetta sé eðlilegt, það stenst ekki. Það gengur engan veginn upp.

Fyrirspurnadagar eru þingdagar alveg nákvæmlega eins og aðrir dagar og þingmenn og ráðherrar eiga að gegna þingskyldum þá daga eins og aðra. Það er ósköp einfaldlega þannig. Þingsköpin eru þannig úr garði gerð að allir þingmenn geta gert athugasemdir þó að aðalmálflutningur fari fram milli fyrirspyrjanda og þess ráðherra sem svarar. Hér eru á dagskrá í dag 23 fyrirspurnir frá líklega 13 eða 14 þingmönnum. Augljóslega er sá hópur og þeir ráðherrar sem ættu að svara fyrirspurnunum bundinn af því að vera hér.

Nú er mér kunnugt um að verið er að vandræðast hér með röð fyrirspurna m.a. vegna fjarveru ráðherra út af þessu ágæta málþingi. Þetta er klaufalegt og svona á ekki að standa að málum. Nóg er nú ráðstefnufarganið samt sem þingmönnum er boðið til og gjarnan ætlast til að þeir mæti á. Það er jafnvel talið til marks um áhugaleysi á viðkomandi málaflokki ef menn reyna ekki að láta þar sjá sig sem einkaaðilar og félagasamtök og aðrir slíkir standa fyrir þó að það bætist ekki við að ráðuneytin sjálf auki mjög á þennan átroðning og þennan vanda. Þetta hefur verið margrætt. Forsetar hafa það ég best veit beint þeim tilmælum til ráðuneyta um að láta þetta ekki endurtaka sig. Frægt varð auðvitað að endemum þegar umhverfisþing sem þingmönnum er lögum samkvæmt ætlað að sitja, samanber lög þar um, var haldið í miðri þingviku. Þetta finnst mér ekki til fyrirmyndar, ekki til eftirbreytni og var þó nógur vandræðagangurinn orðinn samt út af þessu blessaða 100 ára afmæli.