Samræmd stúdentspróf

Miðvikudaginn 17. mars 2004, kl. 14:02:05 (5407)

2004-03-17 14:02:05# 130. lþ. 85.2 fundur 489. mál: #A samræmd stúdentspróf# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 130. lþ.

[14:02]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil minna á lögin um framhaldsskóla frá árinu 1996 þar sem segir m.a. að stúdentspróf skuli vera samræmd í tilteknum greinum og að í reglugerð skuli sett ákvæði um samræmingu stúdentsprófa og framkvæmd þeirra. Í bráðabirgðaákvæði laganna segir að samræmd lokapróf skuli ekki komin að fullu til framkvæmda fyrr en skólaárið 2003--2004.

Í reglugerð sem menntmrh. setti síðan í mars 2003 var ákveðið að samræmd próf skyldu þreytt í íslensku, ensku og stærðfræði og er þar áskilið að nemendur þreyti próf í a.m.k. tveimur greinum.

Í bráðabirgðaákvæði reglugerðarinnar segir jafnframt að einungis skuli haldið samræmt stúdentspróf í íslensku í maí og desember 2004 og að þátttaka í prófinu sé valkvæð fyrir þá nemendur sem útskrifast með stúdentspróf í lok vor- eða haustannar 2004. Það er rétt að rifja það upp hér að samkvæmt lögum sem Alþingi setti um samræmd próf segir í greinargerðinni með frv. að meginforsendan fyrir því að halda eigi samræmd lokapróf sé m.a. að það sé sjálfsagt réttlætismál fyrir nemendur, foreldra, viðtökuskóla og atvinnulíf að lokapróf allra framhaldsskóla séu jafngild. Þetta segir í rökstuðningi í greinargerðinni. Það væri einnig sjálfsagður réttur nemenda að nám væri sambærilegt að gæðum milli framhaldsskóla og að lokapróf úr framhaldsskóla væru jafngild hvar sem þau væru tekin.

Gagnrýnt hafði þá verið að það skorti á samræmingu á námsframboði og námskröfum milli framhaldsskóla og jafnvel innan sama skóla. Markmiðssetning, kennsla, próf og námsmat væri að öllu leyti í höndum einstakra kennara án þess að þessu frelsi skóla og kennara væri fylgt eftir með virku ytra eftirliti. Til að tryggja jafnan rétt nemenda til sambærilegs náms óháð því hvar það væri stundað gerðu lögin ráð fyrir að lokapróf úr framhaldsskólum yrðu samræmd í tilteknum námsgreinum.

Ég vil vekja athygli hv. fyrirspyrjanda á því að það þarf atbeina Alþingis til ef falla á frá því að halda samræmd stúdentspróf. Menntmrh. getur í reglugerð gert breytingar á framkvæmd prófanna en hann fellir þau ekki alfarið niður að óbreyttum lögum. Ljóst er að haldgóð rök þurfa að vera fyrir hendi ef breyta á vilja Alþingis sem endurspeglast í greinargerðinni sem ég vitnaði til áðan.

Ég vil jafnframt leyfa mér að benda á að þingmenn þeirra flokka sem hafa verið kallaðir forverar Samf., þar á meðal Alþýðubandalagið og Alþýðuflokkurinn, greiddu ekki atkvæði gegn þessu frv. á sínum tíma, árið 1997, þannig að skýr vilji var a.m.k. hjá þeim flokksbrotum á þeim tíma. Það er skoðun mín að til þess kunni að koma, og ég vil undirstrika það, að endurskoða þurfi fyrri áform um að skylda alla nemendur sem ljúka stúdentsprófi til að þreyta samræmd próf. Í þessu sambandi má m.a. nefna að skýrslur þriggja starfshópa sem eru að störfum við að útfæra tillöguna um styttingu framhaldsskólans munu væntanlega liggja fyrir í næsta mánuði og er þess að vænta að þar með muni liggja fyrir helstu forsendur til þess að hægt sé að taka ákvörðun um það hvort stytta eigi námstíma til stúdentsprófs eða ekki.

Undirbúningur fyrir samræmt próf í íslensku er á lokastigi og hefur prófdagur verið ákveðinn 3. maí. Eftir vandlega athugun mína er það niðurstaða mín að ekki verði horfið frá því að halda samræmt stúdentspróf í íslensku í vor, í það hefur verið lagður mikill undirbúningur, heldur verði prófið haldið og reynslan af því metin. Mér skilst að hátt á fimmta hundrað manns hafi skráð sig í þessi samræmdu próf í framhaldsskólunum. Áhuginn er greinilega til staðar. Hins vegar áskil ég mér rétt, eins og ég sagði áðan, til að endurskoða framkvæmd þessara prófa og þá ekki síst með tilliti til þeirra áforma sem eru núna uppi hjá mér um að stytta námstíma til stúdentsprófs.