Samræmd stúdentspróf

Miðvikudaginn 17. mars 2004, kl. 14:08:46 (5410)

2004-03-17 14:08:46# 130. lþ. 85.2 fundur 489. mál: #A samræmd stúdentspróf# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., EMS
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 130. lþ.

[14:08]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Ég fagna þeim orðum hæstv. menntmrh. að það sé eðlilegt að þessi samræmdu próf öll verði endurskoðuð. Ég held að það hljóti að verða til athugunar líka í hv. menntmn. að velta því fyrir sér hvort þetta lagaákvæði sé ekki þess eðlis að ástæða sé til að gera tillögu um að það verði fellt brott.

Hæstv. ráðherra vitnaði einmitt í greinargerð með frv. sem sýnir að á þeim tíma sem lögin voru í meðhöndlun Alþingis hafa menn haft oftrú á prófum sem matstæki á skólastarf. Mjög margt hefur breyst í skólastarfi og í mati á skólastarfi frá þeim tíma. Bæði hefur komið til innra og ytra mat á skólastarfi sem gefur miklu betri mynd af því sem er verið að gera í skólanum og það er líka á margan hátt eðlilegra að háskóladeildir ákveði með hvaða hætti þær vilja hafa inntökur í deildir sínar, þ.e. hvers konar blanda af stúdentsprófum verði þar og jafnvel verði þar tekin upp einhver inntökupróf. Ég held að allir aðilar eigi að geta sameinast um að þetta ákvæði verði tekið til sérstakrar skoðunar.

Að lokum, herra forseti, væri fróðlegt ef hæstv. menntmrh. gæti upplýst þingheim um það hvaða kostnaður er því samfara að hafa þessi samræmdu próf.