Samræmd stúdentspróf

Miðvikudaginn 17. mars 2004, kl. 14:10:12 (5411)

2004-03-17 14:10:12# 130. lþ. 85.2 fundur 489. mál: #A samræmd stúdentspróf# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 130. lþ.

[14:10]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að fagna því viðhorfi sem virðist koma fram hjá þingheimi, að menn eru almennt á þeirri skoðun að endurskoða eigi upptöku samræmdra stúdentsprófa og með það að markmiði að leggja þau af. Þau eru úreltur mælikvarði á frammistöðu einstakra nemenda og þurfi háskólaráð á öðrum viðmiðum að halda en þeim sem stúdentsprófin gefa geta þeir sjálfir framkvæmt slík viðmiðunarpróf. Það gefur augaleið. Kostirnir eru fáir. Ég fagna því að hæstv. ráðherra lýsir því þó yfir að hún ætli að endurskoða upptöku samræmdra stúdentsprófa eftir að prófið hefur verið haldið í vor. Ég vona, og beini þeim tilmælum eindregið til hennar eins og þeir hv. þm. sem hér hafa talað, að sú endurskoðun verði til þess að samræmdu stúdentsprófin verði lögð af. Fyrir þeim eru engin haldbær rök en þau hafa hins vegar marga ókosti í för með sér eins og þá að vega mjög harkalega að sérstöðu og þeirri skemmtilegu flóru sem er að finna meðal íslenskra framhaldsskóla. Þeir eru mjög ólíkir innbyrðis og nemendur hafa því val um að stunda talsvert ólíkt og öðruvísi samansett stúdentspróf heldur en var þegar skólarnir voru færri og samræmdari. Það er engin ástæða til að breyta þessu með neinum hætti, frekar að styrkja skólana þannig að þeir geti áfram byggt upp fjölbreytt og skemmtilegt nám til stúdentsprófs sem hefur gildi.

Þá ber þess að geta að um leið og menn skoða það sjálfsagða markmið að lækka útskriftaraldur úr framhaldsskólum leiðir það auk heldur til þess að samræmdu stúdentsprófin verði lögð af. Eins og segir í 6. gr. reglugerðarinnar, með leyfi forseta.

,,Nemandi skráir sig í samræmd stúdentspróf þegar hann telur sig hafa náð þeim markmiðum sem prófgráður miðast við.``

Þarna liggur t.d., herra forseti, vandi bekkjakerfisskólanna því að þeir hafa ekki staðlað einingakerfi og málefni skólanna og námsefni eru mjög ólík. Þess vegna verður að gefa bekkjakerfisskólunum tækifæri á að gera sig sambærilega áfangaskólunum.