Þjónustusamningur við Reykjavíkurakademíuna

Miðvikudaginn 17. mars 2004, kl. 14:18:07 (5414)

2004-03-17 14:18:07# 130. lþ. 85.3 fundur 681. mál: #A þjónustusamningur við Reykjavíkurakademíuna# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 130. lþ.

[14:18]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir að vekja athygli á þeirri merku akademíu sem Reykjavíkurakademían vissulega er.

Opinber stuðningur við Reykjavíkurakademíuna hófst árið 1998 þegar fjmrn. með hæstv. fjmrh. Geir H. Haarde í broddi fylkingar ákvað að framleigja félaginu tvær hæðir í JL-húsinu við Hringbraut gegn vægu gjaldi til ársins 2002.

Árið 1999 ákvað fjárln. þingsins að veita félaginu 5 millj. kr. til undirbúnings þjónustusamnings við menntmrn. og árið 2000 hækkaði Alþingi styrkinn í 10 millj. kr. Í fjárlögum 2001 fékk Reykjavíkurakademían aftur sérstakt tímabundið 10 millj. kr. framlag til að byggja upp rekstrarform, stjórnsýslu og starfsmannahald, til að stofnunin stæðist þær kröfur sem gerðar eru til sjálfseignarstofnana sem gera samninga um rekstrarverkefni við einstök ráðuneyti.

Alþingi samþykkti síðan 7 millj. kr. fjárframlag til Reykjavíkurakademíunnar árið 2002. En vegna mikilla rekstrarörðugleika á því ári samþykkti menntmrn. að veita stofnuninni 3 millj. kr. til viðbótar af safnliðum ráðuneytisins. Síðan þá hafa framlög ríkisins til stofnunarinnar verið 10 millj. kr. á ári. Þessu til viðbótar hefur Reykjavíkurakademían hlotið styrki frá Reykjavíkurborg.

Menntmrn. hefur ekki treyst sér til að skuldbinda ríkissjóð til lengri tíma á þeim nótum sem væntingar Reykjavíkurakademíunnar standa til. Hefur ráðuneytið því miður ekki haft svigrúm til að gera þjónustusamning um önnur verkefni en þau sem ráðuneytinu ber að fjármagna lögum samkvæmt. Ekki er hins vegar deilt um það ágæta starf sem fer fram innan Reykjavíkurakademíunnar. Reykjavíkurakademían gengst fyrir rekstri fjölfaglegs fræðaseturs í Reykjavík og er vettvangur sjálfstætt starfandi fræðimanna, einkum í hugvísindum. Þar er einyrkjum á ýmsum fræðisviðum sköpuð aðstaða til fræðaiðkunar og samstarfs. Áhrifa af þessari starfsemi gætir m.a. í fjölda útgefinna fræðirita sem meðlimir Reykjavíkurakademíunnar eru höfundar að, ráðstefnum og málstofum ýmiss konar.

Hins vegar er rétt að minna á að menntmrn. hefur ekki lögformlega skyldu gagnvart þeim hópi fólks sem hefur aflað sér menntunar á sviðum sem falla að starfsemi Reykjavíkurakademíunnar. Einstaklingar sem starfa innan akademíunnar hafa róið á mið samkeppnissjóða, innlendra og erlendra, sem styrkja rannsóknir af þessum toga og hefur mörgum þeirra gengið vel í þeirri sókn.

Í nýrri stefnu Vísinda- og tækniráðs er vikið að skilyrðum sem sjálfstætt starfandi vísindamenn búa við og með þeirri stækkun samkeppnissjóða sem ríkisstjórnin stefnir að á kjörtímabilinu --- ég minni á að við ætlum að auka framlög til Vísinda- og tækniráðs og tæknisjóða um 1 milljarð kr. --- er fjölgað tækifærum sem munu ekki síst nýtast þeim vísindamönnum sem starfa hjá Reykjavíkurakademíunni. Ég átti mjög góðan fund í morgun með forsvarsmönnum Reykjavíkurakademíunnar og þar tóku þeir einmitt undir þessi atriði.

Það er mat ráðuneytisins að besti stuðningur við þessa starfsemi sé að veita keppni til samkeppnissjóða sem þetta fólk getur þá keppt um innbyrðis og við önnur svið vísinda og fræða til að tryggja að bestu verkefnin njóti stuðnings af opinberu fé.

Ég er að sjálfsögðu reiðubúin til að beita mér fyrir áframhaldandi rekstrarframlagi til Reykjavíkurakademíunnar. Eins og ég kom inn á áðan átti ég vel heppnaðan fund með forsvarsmönnum Reykjavíkurakademíunnar þar sem við fórum yfir þeirra mál og ég gerði þeim grein fyrir þeirri aðstöðu sem ég er í núna. Að sjálfsögðu mun ég reyna að beita mér fyrir því að rekstrarumhverfi þeirra og almennt starfsumhverfi verði tryggt. Hvort það verður í formi þjónustusamnings, því vil ég ekki lofa hér og nú. Þá væri ég að lofa upp í ermina á mér og það er nákvæmlega það sem ég hef sagt við þá. En ég hef allan skilning á starfi þeirra sem þar starfa, enda styður það mjög við þá þróun sem við höfum verið að beita okkur fyrir í háskólasamfélaginu, einmitt að tryggja sem mest frelsi innan háskólasamfélagsins og hafa sem fjölbreyttasta flóru af m.a. sjálfstætt starfandi fræðimönnum.

Tækifærin eru mýmörg til þess að tengja Reykjavíkurakademíuna við annaðhvort háskóla eða háskólanámssetur eins og hv. þm. Mörður Árnason gat réttilega um þó að þeir færu nú ekki inn í háskóla á Vestfjörðum sem er ekki stofnaður. Það yrði þá frekar háskólanámssetur á Vestfjörðum eða eitthvað því um líkt sem þeir gætu stutt við uppbyggingu á. Þeir hafa, held ég, bæði þekkingu og styrk til þess að koma vel að slíkum málum.

Ég mun halda áfram að vera með málefni Reykjavíkurakademíunnar uppi á borðum hjá mér en get í bili ekki annað sagt en að í dag muni ég beita mér áfram fyrir rekstrarframlagi til Reykjavíkurakademíunnar.