Fyrirtæki sem framleiða sjónvarpsefni

Miðvikudaginn 17. mars 2004, kl. 14:28:09 (5418)

2004-03-17 14:28:09# 130. lþ. 85.4 fundur 685. mál: #A fyrirtæki sem framleiða sjónvarpsefni# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi ÁF
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 130. lþ.

[14:28]

Fyrirspyrjandi (Ásgeir Friðgeirsson):

Virðulegi forseti. Alþjóðavæðing fjölmiðla hefur skapað stóran markað fyrir sjónvarpsefni hvaðanæva að. Á þessum markaði hafa Íslendingar því miður fyrst og fremst verið þiggjendur, innlend dagskrárgerð fyrir sjónvarp stendur veikum fótum. Sjóður sem styrkja á gerð á leiknu íslensku sjónvarpsefni fékk á síðasta ári 15 millj. kr. til ráðstöfunar og ríkissjónvarpið keypti frá sjálfstæðum framleiðendum íslenskt efni fyrir samtals 58 millj. kr. á árinu 2003. Rétt er að geta þess að stærsti hluti innlendrar dagskrárgerðar er hins vegar unninn innan veggja RÚV og má ekki með neinum hætti gera lítið úr því ágæta starfi.

Á Íslandi í dag skiptir hundruðum það unga fólk sem hefur menntun, hæfileika, reynslu og kunnáttu á sviði sjónvarpsmyndagerðar og það hungrar eftir verkefnum. Þetta eru framleiðendur, leikstjórar, tökumenn, hönnuðir, hljóðmenn, ljósamenn, klipparar, leikarar, tónskáld, hljóðfæraleikarar og svo mætti áfram telja. Þessi auðlind okkar er í dag vannýtt.

Staða fyrirtækja í framleiðslu á sjónvarpsefni hefur verið slæm lengi. Stefnumótun stjórnvalda hefur engin verið og opinberir stuðningssjóðir veikir. Helsta von þessara fyrirtækja hefur verið að ríkissjónvarpið tæki myndir þeirra til sýninga.

En nú virðist steininn hafa tekið úr. Samkvæmt nýlegum fréttum fjölmiðla er svo komið að það litla fé sem ríkissjónvarpið hefur til kaupa á innlendu efni er uppurið fyrir þetta ár. Stjórnendur RÚV hafa lýst því yfir að þeir muni halda að sér höndum við innkaup á innlendu efni. Í fyrirspurnatíma á hinu háa Alþingi vísaði hæstv. iðn.- og viðskrh. vanda fyrirtækja í framleiðslu á sjónvarpsefni alfarið yfir á hæstv. menntmrh. Viðskrh. deildi áhyggjum af alvarlegri stöðu þessara nýsköpunargreina og hvatti til þess að hæstv. menntmrh. yrði spurð um stöðu greinarinnar.

Því er spurt: Telur ráðherra þörf á sérstökum aðgerðum til stuðnings fyrirtækjum sem framleiða sjónvarpsefni í ljósi þess að helsti kaupandi efnis, ríkissjónvarpið, hefur lýst því yfir að fyrirtækið muni halda að sér höndum við kaup á íslensku dagskrárefni það sem eftir lifir ársins 2004?