Fyrirtæki sem framleiða sjónvarpsefni

Miðvikudaginn 17. mars 2004, kl. 14:31:02 (5419)

2004-03-17 14:31:02# 130. lþ. 85.4 fundur 685. mál: #A fyrirtæki sem framleiða sjónvarpsefni# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 130. lþ.

[14:31]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Herra forseti. Í reglugerð um Kvikmyndasjóð er gert ráð fyrir að fjárveitingar úr sjóðnum renni til undirbúnings og framleiðslu þriggja tegunda kvikmynda- og sjónvarpsefnis, þ.e. til leikinna kvikmynda í fullri lengd, til heimildar- og stuttmynda og til leikins sjónvarpsefnis. Fjárveitingar til Kvikmyndasjóðs árið 2004 eru um 313,4 millj. kr. Ef litið er til þess efnis sem framleitt er, m.a. til sýninga í sjónvarpi, eru veittar 100 millj. kr. til heimildar- og stuttmynda og 15 millj. kr. til leikins sjónvarpsefnis. Framlög til síðastnefnda þáttarins voru fyrst veitt í fyrra því að ráðuneytið taldi nauðsynlegt að styðja þennan þátt íslenskrar kvikmyndagerðar, enda fellur það að stefnu stjórnvalda að efla kvikmyndagerð og kvikmyndamenningu hér á landi.

Eins og fram hefur komið er Ríkisútvarpið stærsti kaupandi íslensks sjónvarpsefnis. Það hefur hins vegar ekki lýst því yfir að það muni halda að sér höndum við kaup á íslensku dagskrárefni frá sjálfstæðum framleiðendum það sem eftir lifir árs 2004, eins og fullyrt hefur verið, heldur aðeins að það muni halda að sér höndum þar til fjárhagsstaða þess verður skýrari. Sjónvarpið hefur þegar keypt mikið efni sem bíður sýningar auk þess sem það hefur gert samninga við framleiðendur um kaup á leiknu efni sem er í framleiðslu eða á undirbúningsstigi. Samkvæmt upplýsingum Ríkisútvarpsins er búist við að svipuð fjárhæð verði veitt á yfirstandandi ári til innkaupa á íslensku dagskrárefni frá sjálfstæðum framleiðendum og verið hefur undanfarin ár. Hugsanlega verður um að ræða mjög óverulegan niðurskurð en það skýrist þegar líður á árið. Fullyrðing um að sjónvarpið hyggist draga verulega úr innkaupum virðist því ekki eiga við rök að styðjast. Ráðuneytið hefur engin áform uppi um að veita fé til þeirra fyrirtækja sem framleiða íslenskt sjónvarpsefni umfram það sem þegar hefur verið veitt í Kvikmyndasjóð, enda vandséð með hvaða hætti það ætti að vera.

Eins og fram hefur komið renna um 115 millj. kr. í sjóði sem sjálfstæðir framleiðendur geta sótt í og ætlaðir eru til þróunar og framleiðslu efnis sem hæfir m.a. til sýninga í sjónvarpi. Ef tekið er meðaltal síðustu fimm ára varði sjónvarpið að jafnaði 110 millj. kr. á ári til kaupa á innlendu efni frá sjálfstæðum framleiðendum. Þessar tölur eru án virðisaukaskatts.

Þá er ótalin sú dagskrá sem sjónvarpið framleiðir sjálft. Til fróðleiks má einnig geta þess að Nordisk Film- og TV-Fond veitti á árunum 1994--2003 sjálfstæðum íslenskum framleiðendum 24.667 þús. danskar kr., þ.e. tæplega 290 millj. kr., í framleiðslustyrki til stutt- og heimildarmynda, kvikmynda og sjónvarpsþátta sem sýndir hafa verið í sjónvarpinu á síðustu árum.

Í þessari umræðu, herra forseti, er nauðsynlegt að geta þess að það er ekki aðeins Ríkisútvarpið sem kaupir efnið frá sjálfstæðum framleiðendum. Svo virðist sem hinar sjónvarpsstöðvarnar hafi tilburði til að auka innkaup og framleiðslu eigin efnis. Að öllu samanlögðu verður því að telja að ástand þessara mála sé vel viðunandi þótt vissulega séu alltaf óskir um meira fjármagn og færa megi rök fyrir því að efla beri enn frekar framleiðslu innlends sjónvarpsefnis. Ég held að allir geti tekið undir að það sé hægt og það megi auka enn frekar þessa framleiðslu en ástand mála er engu að síður nokkuð viðunandi.

Ráðuneytið hefur áform um að auka fjárveitingar til framleiðslu leikins sjónvarpsefnis þótt ekki liggi fyrir á þessari stundu nákvæmlega hvort það verði með undirbúningi fjárlaga fyrir næsta ár eða síðar.