Fyrirtæki sem framleiða sjónvarpsefni

Miðvikudaginn 17. mars 2004, kl. 14:37:03 (5422)

2004-03-17 14:37:03# 130. lþ. 85.4 fundur 685. mál: #A fyrirtæki sem framleiða sjónvarpsefni# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., RG
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 130. lþ.

[14:37]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Þetta er miklu mikilvægara mál en margir mundu halda vegna þessarar litlu fyrirspurnar. Þetta er mál sem snýst um menningu, möguleika fagfólks í greininni og þetta er mál sem svo sannarlega snýst um viðhorf stjórnvalda til framleiðslu sjónvarpsefnis.

Ég á sæti í Norræna menningarsjóðnum og ég kvaddi mér hljóðs til að nefna að ég hef auðvitað orðið vör við að það hefur mjög aukist að verið sé að sækja þangað inn eftir stuðningi við smærri myndir og sjónvarpsefni af ýmsu tagi. Þar sem sjóðurinn hefur ekki mikla fjármuni er núna búið að taka ákvörðun um að sinna ekki slíkum verkefnum. Þarna er enn einn staður í raun og veru búinn að loka og það verður að horfa á það að möguleikarnar eru heima, stuðningurinn þarf að vera heima.