Fyrirtæki sem framleiða sjónvarpsefni

Miðvikudaginn 17. mars 2004, kl. 14:40:30 (5424)

2004-03-17 14:40:30# 130. lþ. 85.4 fundur 685. mál: #A fyrirtæki sem framleiða sjónvarpsefni# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 130. lþ.

[14:40]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að tala um menningu og menningarmál því að ég fullyrði að menningin hafi aldrei blómstrað jafn vel og mikið og nú um stundir í íslensku samfélagi. Við erum að tala um menntmrh. og menningarmálaráðherra undanfarinna ára og þegar maður lítur yfir menningarlíf landans má með sanni segja að ég geti verið stolt yfir að vera menntmrh. og vera eftirmaður flokksmanna minna sem hafa setið á þessum stóli (Gripið fram í.) því að þeir hafa vissulega staðið sig vel. Ég vil m.a. minnast á að því framlagi sem var aukið og sett í kvikmyndir fyrir 4--5 árum var fagnað gjörvallt af kvikmyndagerðarmönnum og fleiri listamönnum því að þá var um stóraukið framlag fjármagns til kvikmyndagerðar á landinu að ræða. Það var mikil innspýting í þá merku listgrein.

Við erum að tala um RÚV og ég vil draga það inn í umræðuna sem ég hef áður sagt á þessum vettvangi og ítreka það hér með að inni í þessu er náttúrlega stóra uppstokkunin sem er endurskipulagning á starfsemi RÚV. Velta RÚV er um 3,3 milljarðar. Ég veit það sjálf sem fyrrum starfsmaður Ríkisútvarpsins að þar eru margir góðir hlutir gerðir og margt gott og vandað starfsfólk sinnir dagskrárgerð en það má gera eitt og annað varðandi innra skipulag Ríkisútvarpsins. Það hef ég sagt áður, og ég mun beita mér fyrir því að RÚV verði endurskipulagt með það fyrir augum að auka fjármagn innan Ríkisútvarpsins til innlendrar dagskrárgerðar og dagskrárkaupa, þar með talið sjónvarpsefnis.