Speglunaraðgerðir í hnjám

Miðvikudaginn 17. mars 2004, kl. 14:45:49 (5426)

2004-03-17 14:45:49# 130. lþ. 85.10 fundur 532. mál: #A speglunaraðgerðir í hnjám# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 130. lþ.

[14:45]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir hefur beint til mín spurningu um speglunaraðgerðir á hnjám með holsjá og spyr hver séu viðbrögð ráðherra við fjölda speglunaraðgerða á hnjám með holsjá og miklum kostnaði, hvort ráðuneytið hafi látið kanna ástæður og þörf fyrir þennan mikla fjölda hátækniaðgerða.

Nýverið var í fjölmiðlum nokkur umfjöllun um rannsókn sem gerð var á árangri á mismunandi aðgerðum vegna slitgigtar í hnjám þar sem ýmsum liðspeglunaraðgerðum var beitt. Bentu niðurstöður rannsóknarinnar til þess að aðgerðir gerðu takmarkaðra gagn en áður hafði verið talið við ákveðinn flokk aðgerðanna. Fram að því höfðu allmargar rannsóknir áður bent til að slíkar aðgerðir gætu dregið úr sársauka. Síðan hefur mikil umræða átt sér stað um þessar niðurstöður, einkum meðal bæklunarlækna víða um heim. Landlæknisembættið hefur rætt við bæklunarlækna hér á landi um málið og vakið athygli á rannsókninni og niðurstöðum hennar. Þá munu bæklunarlæknar einnig hafa fjallað um rannsóknina í sínum hópi og verið áfram í samskiptum við landlæknisembættið um þann lærdóm sem af rannsókninni má draga.

Nokkuð erfitt er að fá upplýsingar frá Tryggingastofnun ríkisins um fjölda þeirra aðgerða sem eingöngu falla undir þann flokk sem rannsóknin fjallaði um. Upplýsingar eru ekki haldbærar um svo nákvæmar ábendingar aðgerðanna. Eftir því sem næst verður komist má þó áætla að aðgerðafjöldi af þessum toga hafi verið á árinu 2001, 435, árið 2002, 595 og árið 2003 um 700. Frekar má taka fram í þessu tilefni að liðspeglunartæknin hefur gerbreytt allri aðkomu við rannsóknir og aðgerðir á stórum liðum þar sem áður þurfti að gera opnar aðgerðir með meiri áhættu á fylgikvillum, lengri batatíma o.fl.

Eins og áður hefur komið fram hefur landlæknisembættið þegar vakið athygli á niðurstöðum ofangreindrar rannsóknar. Embættið hefur einnig lagt til að bætt verði úr skráningu á þeim aðgerðum sem Tryggingastofnun greiðir fyrir þannig að auðveldari verði nánari flokkun aðgerða eftir sjúkdómum. Mun landlæknisembættið vinna að frekari tillögum um slíka breytta skráningu sem mundi auðvelda að fylgjast með árangri, umfangi og fjölda einstakra undirflokka aðgerðanna. Landlæknisembættið mun áfram verða í viðræðum við forustumenn bæklunarlækna og hefur í bígerð að ganga frá leiðbeiningum til að vekja frekari athygli á þessum nýju upplýsingum.

Herra forseti. Ég vona að þessar upplýsingar svari fyrirspurn hv. þm.