Speglunaraðgerðir í hnjám

Miðvikudaginn 17. mars 2004, kl. 14:52:05 (5429)

2004-03-17 14:52:05# 130. lþ. 85.10 fundur 532. mál: #A speglunaraðgerðir í hnjám# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 130. lþ.

[14:52]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi velti því fyrir sér hvort við hefðum sofið á verðinum varðandi þessi mál. Ég vil vara við því að draga alhliða ályktanir af því þó slíkar niðurstöður rannsókna komi. Þær eru mun víðtækari í heilbrigðiskerfinu og sem betur fer leiða þær athyglisverðar niðurstöður í ljós. Það er aðalatriðið fyrir okkur að draga af þeim lærdóma.

Ég tek undir að vissulega verðum við að framkvæma aðgerðir og þjóna í heilbrigðiskerfinu á ódýrari stigum. Ég tek undir með hv. fyrirspyrjanda að það þarf að efla heilsugæsluna, einkanlega á höfuðborgarsvæðinu. Hins vegar hefur heilsugæslan ekki verið í stakk búin að mínu mati til að taka upp tilvísanakerfi. Ég hef ekki tekið upp áform um það aftur en við höfum lagt allt kapp á að efla heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu og munum opna heilsugæslustöð væntanlega á þessu ári í Voga- og Heimahverfi. Við erum nýbúin að opna heilsugæslustöð í Kópavogi. Vonandi getum við komið af stað heilsugæslustöð í lok ársins í Hafnarfirði. Það miðar því í þessa átt og sem betur fer er meiri eftirspurn eftir námsstöðum í heilsugæslunni en verið hefur lengi. Ég tel því að ekki sé svo svart fram undan í þessu en það þarf að efla heilsugæsluna og æskilegt væri að þar væri fyrsti viðkomustaður í kerfinu. Hins vegar þurfum við að draga lærdóma af þessari athyglisverðu rannsókn sem hefur borist upp í hendurnar á okkur.