Framtíð sjúklinga á Arnarholti

Miðvikudaginn 17. mars 2004, kl. 14:57:16 (5431)

2004-03-17 14:57:16# 130. lþ. 85.12 fundur 646. mál: #A framtíð sjúklinga á Arnarholti# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 130. lþ.

[14:57]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir hefur beint til mín fyrirspurn um framtíð sjúklinga á Arnarholti, en sem kunnugt er hefur í tillögum Landspítala -- háskólasjúkrahúss mátt sjá tillögu um að breyta verulega starfseminni á Arnarholti og ná þar með nokkurri rekstrarlegri hagræðingu. Er þar gert ráð fyrir flutningi vistmanna til annarra deilda eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, svo sem legudeildar á Landakoti eða til Kleppsspítala. Af hálfu Landspítalans hefur verið lagt mat á aðgerðina, m.a. um aukin félagsleg úrræði fyrir suma þessa einstaklinga.

Vegna tillagna Landspítalans ákvað ég að setja á laggirnar starfshóp til að fara yfir og fjalla um þá starfsemi og þá skjólstæðinga sem nú vistast í Arnarholti. Hópnum er einnig ætlað að gera svipaða athugun á þeim sem vistuðust á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi í Kópavogi og fá þar meðferð. Hópurinn skyldi sérstaklega skoða tengsl og fyrirkomulag heilbrigðisþjónustu og félagslega þjónustu einstaklinganna og með hvaða hætti þjónustunni væri best fyrir komið.

Hópnum var einnig ætlað að skoða frekari möguleika um framtíðaruppbyggingu á báðum stöðunum, þ.e. bæði í Arnarholti og Kópavogi. Er þar horft bæði til hugsanlegrar þjónustu á sviði heilbrigðismála og félagsmála. Hópurinn hefur þegar tekið til starfa og hefur í upphafi einbeitt sér að málum einstaklinganna og starfseminni í Kópavogi.

Ég á von á því að nú muni hópurinn snúa sér að því að skoða málefni einstaklinganna í Arnarholti en ljóst er að í tillögum Landspítalans er gert ráð fyrir að allir vistmenn yrðu færðir frá Arnarholti. Í ljósi þess að áðurnefndur starfshópur mun skoða málið nánar tel ég ekki rétt að geta nánar á þessu stigi um þann fjölda einstaklinga sem gæti notað hin ýmsu úrræði sem í boði eru og geta verið, en ljóst er að leitað mun allra ráða til að finna bestu möguleg úrræði fyrir hvern og einn og þar með talin félagsleg úrræði.

Ég vil bæta því við að málin eru í skoðun og starfshópurinn mun einbeita sér að þeim, þannig stendur málið því núna. Ég vona að þetta upplýsi hv. þm. um stöðuna eins og hún er og vonandi verða nánari fréttir af málinu innan tíðar.