Framtíð sjúklinga á Arnarholti

Miðvikudaginn 17. mars 2004, kl. 15:04:52 (5435)

2004-03-17 15:04:52# 130. lþ. 85.12 fundur 646. mál: #A framtíð sjúklinga á Arnarholti# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 130. lþ.

[15:04]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Það er athyglisvert í umræðunni að ljóst er að stuðningur er við það hjá þeim sem hafa talað, að félagsleg verkefni eigi ekki heima á hátæknisjúkrahúsi. Hins vegar talaði hv. 4. þm. Suðurl. með nokkrum æsingi um það að ekki væri búið að leysa úr öllum málum. Það er alveg rétt, það er ekki búið. Ég vil hins vegar fullvissa hv. þm. um að það er ágætissamstarf milli félmrn. og heilbrrn. um þessi mál og gott samstarf um að vinna saman að þeim. En það er ekkert einfalt mál. Það eru mörg grá svæði milli ráðuneytanna. Það er því ljóst að vanda þarf til þessa verks af því að þarna er verið að fjalla um ofurviðkvæm mál, einstaklingsbundin í mörgum tilfellum. Við höfum fullan vilja til að vinna að þessu og eins og kom fram hjá hv. 6. þm. Reykv. s. eiga þrjú ráðuneyti fulltrúa í starfshópnum auk spítalans af því að hann er með starfsemi í Arnarholti enn þá. Og ef ég held mig við það mál höfum við fullan hug á því að reyna að gera verkaskiptinguna milli ráðuneytanna eins skýra og hún getur verið. Hins vegar verður alltaf um að ræða einhver grá svæði þarna á milli, málin eru þannig vaxin.