Samstarf heilbrigðisstofnana

Miðvikudaginn 17. mars 2004, kl. 15:11:37 (5438)

2004-03-17 15:11:37# 130. lþ. 85.13 fundur 695. mál: #A samstarf heilbrigðisstofnana# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., MF
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 130. lþ.

[15:11]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Önnu Kristínu Gunnarsdóttur fyrir að taka þetta mál hér upp og reyndar ráðherra líka fyrir svör hans og þann áhuga sem hann hefur sýnt á því að koma á föstu og formlegu samstarfi milli stofnana úti á landi við þessi tvö stóru sjúkrahús sem auðvitað hafa mjög mikla sérstöðu, Landspítali -- háskólasjúkrahús og Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Þetta hefur einnig verið rætt töluvert í þeim nefndum sem hæstv. ráðherra hefur skipað, bæði svokallaðri Jónínunefnd, sem hæstv. forseti þekkir býsna vel, og einnig nefnd sem á að fjalla um breytingar á lögum um heilbrigðisþjónustu. Það er mikill almennur vilji fyrir því, held ég, í þjóðfélaginu öllu að komið verði á frekara og formfastara samstarfi milli þessara stofnana en áður hefur verið og það getur auðvitað stytt legutíma á hátæknisjúkrahúsunum, sem hlýtur að vera ódýrari kostur.