Þverfaglegt endurhæfingarráð

Miðvikudaginn 17. mars 2004, kl. 15:17:11 (5441)

2004-03-17 15:17:11# 130. lþ. 85.11 fundur 615. mál: #A þverfaglegt endurhæfingarráð# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 130. lþ.

[15:17]

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman):

Hæstv. forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. heilbrrh. um þverfaglegt endurhæfingarráð. Eins og hér mun hafa komið fram í umræðu um fyrirspurn varðandi Arnarholt fyrr í þessum fyrirspurnatíma þá kemur niðurskurður --- ég kalla það niðurskurð en ekki sparnað --- á þjónustu Landspítalans víða við. Vegna aðhaldsaðgerða reyna stjórnendur Landspítalans að skilgreina þá bráðaþjónustu sem nauðsynleg er og koma út úr starfsemi sjúkrahússins allri þeirri þjónustu sem mögulegt er. Þar með mundu flokkast félagsleg verkefni eða verkefni á gráu svæði sem hafa verið á borði Landspítala -- háskólasjúkrahúss fram að þessu. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um það að ég hef marggagnrýnt hér þau vinnubrögð að geyma ekki allar slíkar ákvarðanir þangað til sú nefnd sem er að fara yfir verkaskiptingu Landspítala -- háskólasjúkrahúss og Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri hefur lokið störfum.

Margir hafa áhyggjur af þessu og m.a. ályktuðu sjúkraþjálfar um málið. Þeir telja að með því að skera niður þjónustu á endurhæfingarsviði með fækkun stöðugilda sjúkraþjálfa á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi sé í raun verið að færa til verkefni, þau hverfi ekki heldur þurfi að þjóna þessum sjúklingum einhvers staðar annars staðar og m.a. mundi þetta beinast að sjúklingum á Arnarholti og í Kópavogi.

Í áskorun sinni bendir Félag íslenskra sjúkraþjálfa á að í gildandi heilbrigðisáætlun sem gildir til 2010 er bókstaflega sagt fyrir um að á áætlun sé og að að það sé við næsta horn, að skipa þverfaglegt endurhæfingarráð.

Því spyr ég hæstv. heilbrrh.:

1. Hefur ráðherra skipað þverfaglegt endurhæfingarráð sem ákveðið var að koma á fót eins og fram kemur í heilbrigðisáætlun?

2. Mun ráðherra fresta breytingum á hæfingar- og endurhæfingarþjónustu LSH þar til heildstætt þverfaglegt mat hefur farið fram á þjónustuþörf þeirra einstaklinga sem nú vistast í Arnarholti og Kópavogi, og mun endurhæfingarráð koma að því mati?