Þverfaglegt endurhæfingarráð

Miðvikudaginn 17. mars 2004, kl. 15:25:17 (5444)

2004-03-17 15:25:17# 130. lþ. 85.11 fundur 615. mál: #A þverfaglegt endurhæfingarráð# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 130. lþ.

[15:25]

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman):

Hæstv. forseti. Það er hálfönugt að vita til þess að allar þær breytingar sem nú standa fyrir dyrum skuli stafa af aðhaldi í rekstri Landspítalans. Þess í stað ætti að vinna skipulagsbreytingar á faglegum grunni eins og segir m.a. í heilbrigðisáætlun, þ.e. að skipa þetta þverfaglega endurhæfingarráð og vinna lausnir út frá þeim forsendum en ekki út frá sparnaðarsjónarmiðum því að þessi sjúklingar gufa ekki upp.

Sem betur fer er búið að fresta lokun á þessum tveimur stöðum, Arnarholti og Kópavogi. Ég vil benda á einn stað til viðbótar. Það er Teigur sem er á þessu gráa svæði og þar sem einnig fer fram mikilvæg þjónusta.

Að endingu snýr þetta allt að fjármagni og það er alveg ljóst að þó svo að mörgum hafi fundist fjármagn til heilbrigðisþjónustunnar hafa aukist umtalsvert á undanförnum árum þarf að koma meira í þann málaflokk. Það er alveg ljóst. Hvort sem þessi þjónusta er eyrnamerkt heilbrigðisþjónustunni eða félagsþjónustunni þá þarf þarna meira fjármagn. Við viljum standa að heilbrigðis- og félagsþjónustu eins og menn.

Varðandi húsnæðið í Arnarholti og Kópavogi þá hentar það mjög vel fyrir einstaklinga eins og þá sem hafa verið á þeim stöðum. Mér þykir miður ef brjóta ætti þjónustuna upp þannig að einhver allt önnur starfsemi kæmi þarna inn. Ég tel að hæfing og endurhæfing ætti að vera undir sérstakri rekstrareiningu og á ábyrgð heilbrrh. Það á að halda í það góða starf og starfsfólk sem þarna hefur verið og starfað og getur starfað áfram, í staðinn fyrir að brjóta þetta allt saman upp.