Þróun atvinnuleysis og kjör atvinnulausra

Miðvikudaginn 17. mars 2004, kl. 15:32:05 (5446)

2004-03-17 15:32:05# 130. lþ. 85.95 fundur 415#B þróun atvinnuleysis og kjör atvinnulausra# (umræður utan dagskrár), Flm. ÖS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 130. lþ.

[15:32]

Össur Skarphéðinsson:

Frú forseti. Atvinnuleysi er eitt mesta böl sem nokkurn mann getur hent. Fjölmargar rannsóknir sýna að langvarandi atvinnuleysi leiði til sjúkdóma og þunglyndis, og örvænting og félagslegir erfiðleikar eru hlutskipti þeirra sem ekki geta unnið. Menn tapa oft sjálfsvirðingunni og þeir þokast smám saman út á jaðar samfélagsins.

Núverandi ríkisstjórn hefur mistekist hrapallega að skapa umhverfi sem tryggir gott atvinnustig. Undir stjórn hennar hefur atvinnuleysi ekki minnkað. Það hefur þvert á móti stóraukist síðustu mánuði. Í september voru 3.904 Íslendingar án atvinnu en í dag eru þeir orðnir 5.100. Þetta eru afrek hæstv. ríkisstjórnar. Útlitið er því miður ekki nægilega gott. Síðasta könnun Samtaka atvinnulífsins á ráðningaráformum fyrirtækja leiddi í ljós að þau hyggjast fremur fækka en fjölga fólki.

Hagdeild ASÍ sem er eina stofnunin sem hefur farið rétt með spár varðandi atvinnuleysi spáir því núna að á þessu ári verði fleiri einstaklingar án atvinnu en í fyrra og að á næsta ári verði fleiri atvinnulausir en í ár. Þetta, frú forseti, er allt annar veruleiki en ríkisstjórnin sem nú situr við völd lifir í. Það er ekki hægt að hrósa sér af góðæri meðan ríflega 5 þús. Íslendingar ganga um atvinnulausir.

Það er þrennt sem veldur sérstökum áhyggjum við þróun atvinnuleysis í tíð núverandi ríkisstjórnar. Ungu fólki án atvinnu hefur fjölgað mikið. Langtímaatvinnuleysi fer mjög vaxandi og atvinnuleysi meðal kvenna er að aukast um þessar mundir. Ég tel sérstaka þörf á því að við á hinu háa Alþingi tökum til sérstakrar umræðu hlut unga fólksins.

Ég rifja það upp að hæstv. félmrh. lýsti miklum áhyggjum af því á ársfundi Vinnumálastofnunar sl. haust að þá hefði 21% atvinnulausra verið ungt fólk á aldrinum 16--24 ára. Hæstv. félmrh. Í dag er þetta hlutfall 26%. Frá því að hæstv. ráðherra viðraði sínar þungu áhyggjur á ársfundinum í september hefur atvinnulausum ungmennum fjölgað úr 872 í 1.440. Þetta eru hrikalegar tölur og það er sorglegt að sjá aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar andspænis þessum mikla vanda.

Á sama fundi lýsti hæstv. ráðherra því líka yfir að hann hygðist ráðast í sérstakt átak gegn atvinnuleysi ungs fólks. Ég spyr: Hvar er þetta átak? Ég spyr vegna þess að síðan hefur ekki til þess spurst. Það sem meira er, langstærstur hluti þessa fólks er án menntunar og kerfið sem hæstv. ráðherra býður upp á letur það beinlínis til að leita sér starfsþjálfunar vegna þess að atvinnuleysisbætur skerðast ef menn fara á námskeið eftir þriggja mánaða atvinnuleysi sem þó er langsamlega mikilvirkasta úrræðið til að koma mönnum aftur á vinnumarkað samkvæmt upplýsingum sem liggja fyrir í ráðuneyti hæstv. ráðherra.

Það er athyglisvert, frú forseti, að skoða feril Framsfl. varðandi kjör atvinnulausra. Eitt fyrsta verk flokksins var að hætta að tengja bæturnar við lægstu launataxta. Á sl. hausti var þannig búið að klippa sem svarar tveggja mánaða bótum af atvinnulausu fólki sem þó er fjárhagslega verst stadda fólkið á Íslandi. Ég rifja það svo upp að fyrsta verk núv. hæstv. félmrh. var að leggja til að lækka bæturnar enn meira með því að klippa þrjá daga framan af fyrsta mánuðinum í atvinnuleysi. Var það ekki Framsókn sem bjó til slagorðið ,,fólk í fyrirrúmi``? Flokkurinn hefði kannski átt að bæta við ,,nema atvinnuleysingjar``. Sem betur fer knúði verkalýðshreyfingin hæstv. ráðherra til uppgjafar í þessu máli og það var líka hún sem knúði það í gegn að bæturnar hækka upp í 88 þús. kr. Það vita hins vegar allir að á þessu getur enginn lifað og það veit enginn betur en hæstv. ráðherra. Þegar hann tók við lá á skrifborði hans skýrsla hans eigin ráðuneytis sem sýndi að 40% þeirra sem þiggja fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg eru atvinnulaust fólk og næstum tveir þriðju þeirra sem draga fram lífið á atvinnuleysisbótum verða að leita eftir hjálp sveitarfélaga eða hjálparstofnana. Ég spyr því hæstv. ráðherra: Hvað ætlar hann að gera til að efla atvinnu ungs fólks? Hvað ætlar hann að gera til að draga úr langtímaatvinnuleysi? Hvað ætlar hann að gera til að efla atvinnu kvenna?

Að lokum spyr ég hæstv. ráðherra þessarar spurningar sem ég bið hann um að íhuga vel áður en hann svarar: Treystir Árni Magnússon sér til að lifa af 88 þús. kr. á mánuði?