Þróun atvinnuleysis og kjör atvinnulausra

Miðvikudaginn 17. mars 2004, kl. 15:46:51 (5450)

2004-03-17 15:46:51# 130. lþ. 85.95 fundur 415#B þróun atvinnuleysis og kjör atvinnulausra# (umræður utan dagskrár), GAK
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 130. lþ.

[15:46]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir að þessi umræða skuli tekin fyrir á Alþingi. Spá stjórnvalda í þjóðhagsáætlun síðasta haust gerði ráð fyrir að atvinnuleysi yrði 2,5% og mundi minnka á árinu 2005 niður í 2%. Atvinnuleysi hefur síðan farið vaxandi síðustu mánuði og er mest 4,4% á Suðurnesjum. Það tengist uppsögnum um 100 starfsmanna varnarliðsins.

Í ræðu hæstv. forsrh. 2. október síðastliðinn sagði hann eitthvað á þá leið að lokaákvörðun um stálpípuverksmiðju í Helguvík væri á næsta leiti og taldi að það mundi skapa 200 ný störf. Því miður er enn beðið eftir því að sú verksmiðja komist á framkvæmdastig.

Það er í raun aðeins á Austurlandi sem atvinnuleysi er innan þess ramma sem gert er ráð fyrir í þjóðhagsspá ríkisstjórnarinnar. Við megum heldur ekki gleyma því að Austfirðir hafa notið mestra áhrifa á atvinnulífið vegna loðnuvertíðar sem nú virðist lokið. Sá sem hér talar og fleiri þingmenn vöruðu við því að Kárahnjúkaumsvifin mundu ekki skila sér nema að mjög takmörkuðu til annarra landshluta og ríkisstjórnin væri að ofmeta áhrif virkjunar á Austurlandi til atvinnuaukningar almennt. Síðan hefur komið í ljós að fjöldi útlendinga við Kárahnjúka er meiri en gert var ráð fyrir.

Ríkisstjórnin ákvað að draga úr verklegum framkvæmdum, m.a. í vegagerð, um 1 milljarð kr. á þessu ári. Það er mjög áleitin spurning hvort ekki eigi, í ljósi aukins atvinnuleysis, að endurskoða þær aðgerðir og efla atvinnu. Einnig er rétt að minna á að verulegt verðfall er nú á sjávarafurðum sem minnkar tekjur og atvinnu. Þær vísbendingar voru ljósar við fjárlagaumræðuna og á þær bentu ég og fleiri þingmenn.

Ég hlýddi áðan á ræðu hæstv. félmrh. Hann minntist á það afrek að hækka atvinnuleysisbætur. Í nokkur ár hafa atvinnuleysisbætur dregist aftur úr og síðan mikla menn sig af því að hafa látið undan kröfu verkalýðshreyfingarinnar í smááföngum.