Þróun atvinnuleysis og kjör atvinnulausra

Miðvikudaginn 17. mars 2004, kl. 15:51:22 (5452)

2004-03-17 15:51:22# 130. lþ. 85.95 fundur 415#B þróun atvinnuleysis og kjör atvinnulausra# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 130. lþ.

[15:51]

Hjálmar Árnason:

Frú forseti. Sannarlega er það dökk mynd sem hv. stjórnarandstæðingar draga upp af atvinnuleysinu. Ekki skal ég gera lítið úr alvarleika atvinnuleysis. En það vekur furðu að þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa ekki vikið að neinum lausnum hvað varðar atvinnuleysi, heldur er dregin upp hin dökka mynd. Hvorki hafa þeir nefnt langvarandi lausnir, svo sem eins og þær að fá hjól atvinnulífsins til að snúast og skapa fyrirtækjunum þá umgjörð að hjól atvinnulífsins snúist og til verði ný störf. Þegar slíkar umræður fara fram á Alþingi hafa stjórnarandstæðingar þvert á móti gagnrýnt ríkisstjórnarflokkana fyrir að skapa skilyrði til atvinnusköpunar.

Hv. málshefjandi óskaði eftir því að vita og spurði um átakið gegn skammtímaatvinnuleysi. Ég veit að það er mikið verk að vera formaður stórs flokks. Þess vegna kann ýmislegt að hafa farið fram hjá hv. þm. Honum til upplýsingar skal ég benda honum á að hafa t.d. samband við svæðisvinnumiðlun Eyþings, Eyfirðinga og Þingeyinga sem eru að vinna að mjög metnaðarfullu átaki fyrir fólk á atvinnuleysisskrá.

Ég vil enn fremur benda hv. þm. á að hafa samband við sérstakan verkefnishóp á Suðurnesjum sem er að vinna með samfélaginu öllu, með Fjölbrautaskólanum, símenntunarmiðstöð, atvinnurekendum, verkalýðsfélögum, og þannig mætti áfram telja, að sérstökum átaksverkefnum til að koma fólki af atvinnuleysisskrá og til starfa. Þetta lýtur ekki síst að því að koma ungu fólki inn á starfsmenntabrautir og í starfsþjálfun, að koma fólki til starfa hjá fyrirtækjum, þannig að atvinnuleysisbætur fylgi með fyrstu sex mánuðina, í sérstök átaksverkefni á vegum sveitarfélaga og á frumkvöðlanámskeið. Þetta eru verkefni sem unnið er að. Þetta eru lausnir sem skapa bjartsýni en ekki þá dökku mynd sem stjórnarandstaðan dregur upp.